„Amma kenndi mér allt“

Þuríður Yngvadóttir þekkir margar trjátegundir. Þá þekkingu hefur hún frá …
Þuríður Yngvadóttir þekkir margar trjátegundir. Þá þekkingu hefur hún frá ömmu sinni og alnöfnu. mbl.is/Hari

Blóðberg, birki­tré, reyni­tré, rifs­ber, róf­ur, furu­tré og Rauði kross­inn. Þekk­ing hinn­ar ell­efu ára gömlu Þuríðar Yngva­dótt­ur vakti mikla at­hygli þeirra sem horfðu á fræðsluþátt­inn Hvað höf­um við gert? sem sýnd­ur var í Rík­is­sjón­varp­inu síðasta sunnu­dag. Þar fór hún létt með að bera kennsl á mynd­ir af öllu þessu og ýmsu öðru til, hluti sem marg­ir full­orðnir myndu klóra sér í höfðinu yfir.

Þátt­ur­inn, sem er í um­sjón Sæv­ars Helga Braga­son­ar, fjall­ar um lofts­lags­mál og í 2. þætti var m.a. fjallað um hvernig mann­fólkið hef­ur fjar­lægst nátt­úr­una og hvernig auk­in neysla og of­fram­leiðsla geng­ur á auðlind­ir jarðar og ýtir und­ir lofts­lags­breyt­ing­ar. Sem dæmi var sýnt hversu vel fróðleiks­fús börn þekkja fjöl­mörg vörumerki en ekki jafn auðveld­lega nöfn trjáa og græn­metis­teg­unda.

Þuríður skar sig hins veg­ar úr. Hún þekkti ekki aðeins vörumerki Nike, Coca-Cola og Face­book, svo dæmi séu tek­in, held­ur einnig öll trén, blóm og græn­meti sem henni voru sýnd­ar mynd­ir af. Og þessa þekk­ingu á hún að miklu leyti ömmu sinni og al­nöfnu að þakka.

Í mynd­skeiðinu hér að neðan má sjá Þuríði leysa þraut­ina í þætt­in­um. Grein­in held­ur áfram fyr­ir neðan mynd­skeiðið.


Þuríður býr ásamt tveim­ur yngri systkin­um og for­eldr­um sín­um, verk­fræðing­un­um Yngva Guðmunds­syni og Sigrúnu Melax, í Úlfarsár­dal. Af svöl­un­um í stof­unni er fal­legt út­sýni yfir gró­inn dal­inn og holt­in og hæðirn­ar í kring. Nátt­úr­an er því ekki langt und­an en það var þó í Mos­fells­bæn­um, þar sem fjöl­skyld­an bjó áður, sem Þuríður kynnt­ist henni vel. „Þar var fullt af trjám og við amma fór­um sam­an í göngu­ferðir og hún kenndi mér allt,“ seg­ir hún bros­andi. „Svo fer ég líka oft með ömmu að selja jóla­tré.“ Í því verk­efni sé auðvitað lyk­il­atriði að þekkja mun­inn á greni og furu.

Tré er nefni­lega ekki bara tré.

Yngvi seg­ir Þuríði móður sína taka það hlut­verk sitt að fræða barna­börn­in um nátt­úr­una al­var­lega. Hún er líka sér­fræðing­ur á því sviði, vinn­ur hjá ORF líf­tækni, var í stjórn Skóg­rækt­ar­fé­lags Íslands og er nú formaður Land­græðslu­sjóðs.

Þuríður yngri og eldri ásamt Ólöfu litlu systur.
Þuríður yngri og eldri ásamt Ólöfu litlu syst­ur. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Þuríður hin yngri seg­ist hafa gam­an af því að læra nýja hluti og að sögn föður henn­ar er hún nokk­urs kon­ar „lím­heili“. Stund­um komi það hon­um á óvart hvaða upp­lýs­ing­ar hún hafi drukkið í sig. Hann hafi til að mynda furðað sig á því að hún þekkti blóðberg er henni var sýnd mynd af því í sjón­varpsþætt­in­um. Enn og aft­ur mátti rekja kunn­átt­una til Þuríðar ömmu. „Þær höfðu þá farið að tína blóðberg við sum­ar­bú­staðinn síðasta sum­ar og gert sér te,“ út­skýr­ir Yngvi og bros­ir.

Hann viður­kenn­ir að senni­lega megi eitt­hvað af allri þess­ari þekk­ingu Þuríðar rekja til þeirra for­eldr­anna. „Ætli við séum ekki stans­laust að ýta ein­hverju að henni og ræða við hana um allt milli him­ins og jarðar. Stund­um fær hún nú al­veg nóg af því,“ seg­ir hann og horf­ir hlæj­andi á dótt­ur sína sem kink­ar ró­lega kolli.

Yngva finnst hlut­verk for­eldra í dag ekki síst vera það að reyna að hafa stjórn á og draga úr öllu því áreiti sem börn verði fyr­ir. Þannig reyni þau Sigrún til dæm­is að beina at­hygli dótt­ur sinn­ar að sjón­varps­efni sem sé henni bæði til gagns og gam­ans. „Og það má ekki gleyma að sýna um­hverfi sínu at­hygli, nátt­úr­unni og nátt­úru­öfl­un­um. Að út­skýra og fræða, reyna í sam­ein­ingu að skilja.“

 „Ég á upp­á­halds­dýr,“ svar­ar Þuríður spurð hvað það sé í nátt­úr­unni sem heilli mest. „Þau eru tvö, kött­ur og ref­ur.“ Ref hef­ur hún séð með eig­in aug­um, í hús­dýrag­arðinum að Hraðastöðum í Mos­fells­dal. Hann er þó langt í frá mest fram­andi dýrið sem hún hef­ur barið aug­um því fjöl­skyld­an bjó í Suður-Afr­íku fyr­ir nokkr­um árum. Þar voru for­eldr­arn­ir í námi og Þuríður gekk í leik­skóla. Afr­íska dýra­lífið er vissu­lega fjöl­skrúðugra en hið ís­lenska og sá Þuríður þar meðal ann­ars krókó­díla, ljón og fiðrildi. Eft­ir­minni­leg­asta dýrið sem hún komst í tæri við þar var þó kóngu­ló. „Riiiisa­stór kóngu­ló,“ rifjar hún upp.

Þuríður í safaríi í Suður-Afríku þar sem hún bjó ásamt …
Þuríður í safa­ríi í Suður-Afr­íku þar sem hún bjó ásamt for­eldr­um sín­um. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

Yngvi er véla­verk­fræðing­ur og Sigrún iðnaðar­verk­fræðing­ur. „Pabbi vinn­ur við að búa til raf­magn og heitt vatn með jarðhita,“ upp­lýs­ir Þuríður. Um­hverf­is­mál koma mikið við sögu í störf­um for­eldr­anna og því hef­ur lofts­lags­mál oft borið á góma á heim­il­inu.

Þuríði fannst mjög gam­an að taka þátt í litlu til­raun­inni í sjón­varpsþætt­in­um. Hún er líka áhuga­söm um lofts­lags­breyt­ing­ar. „Mér finnst að við ætt­um að gera eitt­hvað í mál­inu, það er ekki nóg að gera bara þætti og skrifa und­ir samn­inga,“ seg­ir hún ákveðin. Þátt­ur sem þessi gæti þó vakið fólk til um­hugs­un­ar um hvernig við göng­um um jörðina. Ýmsar breyt­ing­ar má að mati Þuríðar gera á neyslu­venj­um. „Ég vil að við hætt­um að nota svona mikið plast og að nota olíu og bens­ín á bíla,“ seg­ir hún. Fyr­ir nokkr­um árum skipti fjöl­skyld­an yfir í raf­magns­bíl og tvinn­bíl. „Við reyn­um að leggja eitt­hvað af mörk­um,“ seg­ir Yngvi.

Þuríður býr í Úlfarsárdal og þar er stutt í náttúruna.
Þuríður býr í Úlfarsár­dal og þar er stutt í nátt­úr­una. mbl.is/​Hari

Þuríður er í 6. bekk í Dal­skóla. Þar finnst henni skemmti­leg­ast að læra leik­list og stærðfræði. Hún seg­ir ekki mikla kennslu í nátt­úru­fræðum í skól­an­um og að meira mætti gera af því. Eft­ir skóla þykir henni skemmti­legt að spila tölvu­leiki og horfa á sjón­varpið og þá verða dýra­lífsþætt­ir oft fyr­ir val­inu.

Þegar hún verður stór lang­ar hana að verða verk­fræðing­ur, eins og mamma og pabbi. „Maður ræður samt al­veg hvað maður ger­ir,“ seg­ir faðir henn­ar við hana og þau hlæja bæði.

Þuríður hefur séð mörg framandi dýr. Hér er hún í …
Þuríður hef­ur séð mörg fram­andi dýr. Hér er hún í Suður-Afr­íku og ef vel er að gáð má sjá ljón fyr­ir aft­an hana. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert