Flugi WOW air frá Gatwick til Keflavíkur sem áætlað var seint í kvöld hefur verið aflýst. Þetta er annað flugi WOW air frá Gatwick til Keflavíkur í dag sem er aflýst, en flugi félagsins til Lundúna í morgun var aflýst.
Í skilaboðum sem farþegar fengu send fyrir skömmu segir að fluginu hafi verið frestað vegna rekstrartakmarkana (e. Operational restrictions).
RÚV hefur eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, að því miður hafi þurft að aflýsa flugi frá London í dag en að allt flug félagsins verði samkvæmt áætlun á morgun.
Áætlunarflug félagsins innan Evrópu hefur að öðru leyti gengið eftir í dag, að undanskildu flugi WOW air til Dublin sem fara átti í loftið klukkan 6:55 fer ekki fyrr en klukkan 00:55 í kvöld. Vélin sem átti að koma frá Dublin klukkan 13:35 mun ekki lenda fyrr en á fjórða tímanum í nótt.