Áhrif á fjöldaþróun ofmetin

Þota Icelandair
Þota Icelandair

Á fundi sem forsvarsmenn Icelandair Group áttu með forystufólki í ríkisstjórn Íslands í gær, voru kynntar hugmyndir sem miða að því að lágmarka höggið sem yrði af falli WOW air. Þar er einkum horft til þess að tryggja að áhrif slíkra atburða myndu hafa sem minnst áhrif á flæði ferðamanna til og frá landinu.

Að sögn viðmælanda Morgunblaðsins sem sat fundinn er það mat Icelandair Group að félagið geti gripið til aðgerða sem tryggt geti að sami fjöldi ferðamanna heimsæki landið og árið 2017. Það ár komu 2,2 milljónir ferðamanna til landsins skv. talningu Ferðamálastofu. Samkvæmt sömu tölum voru ferðamenn sem hingað komu 2,3 milljónir í fyrra.

Séu áætlanir Icelandair réttar kann því að vera mögulegt að koma hlutum í það horf að ferðamönnum myndi aðeins fækka um 4% í ár, miðað við metárið í fyrra. Munu þessar tölur hafa verið lagðar fram til að undirstrika að of mikið væri gert úr þeim miklu áhrifum sem fall WOW air myndi hafa á hagkerfið í heild sinni.

Tilbúnir að breyta áætlunum

Heimildir Morgunblaðsins herma að forsvarsmenn Icelandair hafi ekki útlistað nákvæmlega með hvaða hætti þeir hygðust tryggja áframhaldandi straum ferðamanna til landsins. Það hafi hins vegar falist í tillögunum að félagið gæti með fremur skömmum fyrirvara breytt flugáætlun sinni og m.a. lagt meiri áherslu á að ferja til Keflavíkur farþega sem ættu leið hingað til lands og aftur til baka á upprunastað ferðalagsins, á kostnað þeirra ferðalanga sem aðeins nýta Keflavíkurflugvöll til millilendingar á leið sinni yfir Atlantshafið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert