Aðkoma Samgöngustofu er varðar eftirlit með fjárreiðum flugrekenda snýr að því að tryggja það að flugöryggi sé ávallt í fyrsta sæti.
Þetta segir Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, í samtali við mbl.is, spurð um aðkomu stofnunarinnar að fréttum um erfiða stöðu WOW Air. Samgöngustofa fari eftir sameiginlegri evrópskri reglugerð sem leiðbeini stjórnvöldum um aðkomu að eftirliti. Það sé fyrst og fremst fólgið í því að öryggisþættir á borð við viðhald flugvéla eða þjálfun áhafna sé sett á oddinn.
Samgöngustofa sér um veitingu flugrekstrarleyfa og eftirlit vegna þeirra. Varðandi flugrekstrarleyfi vinnur Samgöngustofa eftir Evrópureglugerð nr. 1008/2008 þar sem segir meðal annars að fyrirtæki þurfi að uppfylla ákveðin fjárhagsleg skilyrði til þess að geta fengið flugrekstrarleyfi. Í 9. grein sömu reglugerðar er einnig fjallað um möguleikann á tímabundinni ógildingu og afturköllun á flugrekstrarleyfi.
Samgöngustofu er heimilt að meta hvenær sem er fjárhagsstöðu flugrekstrarleyfishafa og þarf fullvissa að ríkja um hvort flugrekandi geti staðið við raunverulegar skuldbindingar og aðrar skuldbindingar sem stofnað er til á 12 mánaða tímabili.
Þar kemur þó einnig fram að Samgöngustofu sé heimilt að veita tímabundið leyfi, þó ekki lengur en til 12 mánaða, á meðan fjárhagsleg endurskipulagning fer fram „að því tilskildu að öryggi sé ekki teflt í tvísýnu“ og að raunhæfar líkur séu á því að „fjárhagsleg endurreisn takist“ innan tímabilsins.
Heimildir Morgunblaðsins herma að tap WOW air á síðasta ári hafi numið 22 milljörðum króna. Þá er staða félagsins afar veik um þessar mundir. Þannig mun lausafjárstaða þess vera neikvæð sem nemur rúmum 11 milljónum dollara, jafnvirði 1,4 milljarða króna. Þá er eigið fé félagsins neikvætt sem nemur rúmum 111 milljónum dollara, jafnvirði ríflega 13 milljarða króna.