Gat ekki skannað flugmiðann

Flugvél WOW Air.
Flugvél WOW Air. AFP

Erlendar fréttaveitur hafa fylgst með gangi mála hjá flugfélaginu WOW Air, sem reynir nú að endurskipuleggja rekstur sinn. Flugfarþegar segja farir sínar ekki sléttar á samfélagsmiðlum.

Breski miðillinn Independent greindi frá því að flugi WOW frá Keflavík til Gatwick-flugvallar í London í morgun hafi verið aflýst með stuttum fyrirvara. Í kjölfarið hafi flugið til baka frá Gatwick og hingað til lands verið fellt niður. Aðrir miðlar á borð við Mirror og Sun hafa einnig fjallað um málið.

Notendur á Twitter hafa vitnað í frétt Independent og kvartað yfir upplýsingaleysi frá WOW. Edd Norval segir meðal annars frá því að hafa aðeins frétt af því að fluginu hefði verið aflýst þegar hann náði ekki að skanna flugmiðann sinn á Gatwick.

„Algjörlega niðurbrotinn. Við töpum heilum degi af fríinu okkar og dýrum ferðum en fáum aðeins 12 evrur í skaðabætur. Ótrúlegt,“ skrifar Norval á Twitter-síðu sína og spyr WOW Air hvað sé í gangi.

Gina Marshall greinir einnig frá raunum sínum á Twitter og miðað við færsluna er einnig skortur á upplýsingagjöf til hennar. Hún birtir mynd af færslu Independent.

„Er þetta ástæðan fyrir því að ég og sonur minn höfum þurft að sofa á bekk á flugvellinum á Íslandi?“ spyr Marshall.

Rauði þráðurinn á Twitter virðist vera skortur á upplýsingagjöf. Lucy Moore segir að flugi hennar hafi verið aflýst án þess að hún hafi verið látin vita frá félaginu. „Við höfum beðið á flugvellinum í átta tíma eftir öðru flugi, án þess að fá neinar bætur eða mat,“ skrifar Moore.

Fulltrúi frá WOW hefur svarað þeim öllum með afsökunarbeiðni og ósk um nánari upplýsingar í von um að geta veitt betri hjálp, en fleiri hafa greint frá óförum sínum á Twitter.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert