Handhafar Visa- og MasterCard-greiðslukorta sem keypt hafa flugmiða hjá gjaldþrota flugfélagi geta átt endurkröfurétt. Korthafar þurfa að gera skriflega athugasemd við færslu á vefsíðu útgáfubanka kortsins, eða á vefsíðu Valitor.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Valitor.
Tilefnið er frétt sem birtist á mbl.is fyrr í dag um réttarstöðu miðahafa hjá WOW air ef til gjaldþrots kemur.
Sagði í fréttinni að sé flugmiði greiddur með greiðslukorti með góðum fyrirvara, og því búið að greiðslufæra kaupin, getur verið of seint að endurgreiða miðann.
Fulltrúi Valitors kom því á framfæri að hið rétta væri að tímafrestur til að gera endurkröfu sé 120 dagar frá því þjónusta átti að vera afhent.
„Meginreglan er að handhafar Visa- og MasterCard-greiðslukorta, bæði debet- og kreditkorta, eiga endurkröfurétt þegar fyrirframgreidd þjónusta hefur ekki verið eða verður ekki innt af hendi,“ segir fulltrúinn um þennan rétt.