Lögreglan í Raumsdal í Noregi hefur ákveðið að hefja rannsókn vegna hættuástands sem skapaðist þegar skemmtiferðaskipið Viking Sky varð vélvana á laugardag. Hins vegar er ekki grunur um glæpsamlegt athæfi í tengslum við tilvikið, að því er fram kemur í umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK.
Einnig hefur verið ákveðið að hefja rannsókn á vélarbilun flutningaskipsins Hagland Captain við Hustadvika sem átti sér stað á svipuðum tíma um helgina.
Lögreglan mun leita samstarfs við fleiri norskar stofnanir og eftirlitsaðila sem hafa með umrædd tilvik að gera, að sögn Yngve Skovly lögreglufulltrúa.
Um 300 farþegar sem voru um borð í Viking Sky eru lagðir af stað með flugi frá bænum Molde í Noregi til síns heima. Búist er við því að fleiri hundruð farþegar til viðbótar muni fara með flugi frá Molde í dag.
Níu farþegar eru enn á sjúkrahúsi og er einn enn þá illa haldinn. Alls hafa 28 hlotið meðferð á sjúkrahúsunum í Molde og Kristiansund.
Rúmlega fjögur hundruð af um 1.300 farþegum voru fluttir af skipinu með fimm þyrlum í kjölfar þess að Viking Sky varð vélvana og stefndi í að skipið strandaði, aðeins munaði 100 metrum.