Kjúklingabúið Litla gula hænan hætti rekstri í mánuðinum vegna húsnæðisvandræða og hefur síðustu vikur verið að tæma lagerinn sinn.
Fyrirtækið bauð upp á velferðarkjúkling svonefndan, sem í lifanda lífi fékk að ganga að mestu laus og nærðist að auki aðeins á óerfðabreyttu fæði. Ógerningur reyndist að finna húsnæði sem hentaði starfseminni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Litla gula hænan rak lítið kjúklingabú í uppgerðum útihúsum á bænum Gunnarshólma, sem er rétt utan við Reykjavík. Þangað liggur engin hitavatnsleiðsla sem olli því að hita varð búið með rafmagni. Og kjúklingaeldi krefst allnokkurrar kyndingar, ungarnir þurfa að hafast við í 30 °C á tímabili.