Nánast allt flug WOW á áætlun

Nánast allt flug er á áætlun hjá WOW air en …
Nánast allt flug er á áætlun hjá WOW air en alla helgina hefur verið unnið að því að bjarga flugfélaginu frá þroti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, reynir til þrautar að bjarga flugfélaginu frá gjaldþroti í kjölfar þess að slitnaði upp úr viðræðum við Icelandair Group í gærdag. Allar flugvélar WOW air frá Íslandi voru á áætlun í morgun fyrir utan flug til Gatwick-flugvallar í London. Því flugi var aflýst en ein flugvél félagsins bilaði í Kanada í gær, samkvæmt frétt RÚV klukkan sex í morgun. Sú vél átti að koma frá Montreal klukkan 4:35 en mun lenda samkvæmt áætlun 19:42 í kvöld. Flugi til Íslands frá Gatwick um miðjan dag í dag hefur því verið aflýst.

Flugi WOW air til Dublin sem fara átti í loftið klukkan 6:55 fer ekki fyrr en klukkan 20:50 í kvöld. Vélin sem átti að koma frá Dublin klukkan 13:35 mun ekki lenda fyrr en á þriðja tímanum í nótt.

Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, reynir til þrautar að bjarga flugfélaginu frá gjaldþroti í kjölfar þess að slitnaði upp úr viðræðum við Icelandair Group í gærdag. Frá því á fimmtudagskvöld hafði Icelandair haft til skoðunar að kaupa WOW air að hluta til eða í heild. Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú, að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, að of mikil áhætta fælist í því að fjárfesta í félaginu.

Samkvæmt tilkynningu frá WOW air sem send var út í gærkvöldi vinnur félagið nú að því að ná samkomulagi við meirihluta lánardrottna sinna um að skuldum félagsins verði að stórum hluta umbreytt í hlutafé og að sömu aðilar tryggi félaginu fjármagn til rekstrarins uns það nái „sjálfbærum rekstri til framtíðar“ eins og það er orðað í tilkynningunni. Þessar viðræður munu hafa staðið yfir um helgina, samtímis viðræðunum við Icelandair.

Heimildarmaður Morgunblaðsins sem kemur að viðræðunum segir að reynt verði til þrautar að fá nýtt fjármagn inn í félagið og að í því skyni sé stefnt að sölu á 51% hlut í því.

Um svipað leyti og Icelandair Group sendi frá sér tilkynningu í gær sátu ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar ásamt öðrum ráðgjöfum á fundi í Stjórnarráðinu við Lækjargötu þar sem farið var yfir stöðuna. Meðal þeirra sem sátu fundinn var Michael Ridley, fyrrverandi ráðgjafi hjá J.P. Morgan, en hann kom að ráðgjöf við þáverandi ríkisstjórn Íslands þegar fjármálakerfið riðaði til falls í október 2008.

Fundinn í stjórnarráðinu sátu m.a. þau Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. Að loknum fundi leituðu fjölmiðlar viðbragða þeirra við þeirri stöðu sem upp er komin en þau vörðust öll fregna af fundinum.

Heimildir Morgunblaðsins herma að tap WOW air á síðasta ári hafi numið 22 milljörðum króna. Þar hafi munað gríðarlega um tap vegna sölu fjögurra nýlegra Airbus-þota til Air Canada undir lok síðasta árs. Þá er staða félagsins afar veik um þessar mundir. Þannig mun lausafjárstaða þess vera neikvæð sem nemur rúmum 11 milljónum dollara, jafnvirði 1,4 milljarða króna. Þá er eigið fé félagsins neikvætt sem nemur rúmum 111 milljónum dollara, jafnvirði ríflega 13 milljarða króna. Þá mun hlutfallsleg bókunarstaða félagsins vera um 50% af því sem hún var á sama tíma fyrir ári. Sérfræðingar sem farið hafa yfir stöðu félagsins telja að leggja þurfi WOW air til að minnsta kosti 10 milljarða króna út þetta ár svo halda megi rekstrinum á floti. Skúli Mogensen hefur blásið starfsfólki sínu baráttuanda í brjóst þrátt fyrir hina algjöru óvissu sem uppi er um framtíð félagsins. Þannig sendi hann starfsfólki tölvupóst í gærkvöldi þar sem hann sagði að starfsfólk hefði m.a. haft samband og spurt hvort það gæti lagt hluta launa sinna upp í hlutabréf.

Isavia hefur breytt vanskilakröfu vegna ógreiddra lendingargjalda á hendur WOW air í langtímalán. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er fjárhæð lánsins tæpir 1,8 milljarðar króna.

Ítarlegar er fjallað um málefni WOW air í Morgunblaðinu í dag og á mbl.is í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert