Flugvél WOW Air, TF-DOG, tók á loft frá flugvellinum í Montréal í Kanada klukkan 12.06 að staðartíma, 16.06 að íslenskum tíma, en hún var send af stað eftir að önnur vél félagsins var kyrrsett á vellinum.
Eins og mbl.is greindi frá í morgun var TF-PRO, vél WOW, kyrrsett á flugvellinum í gærkvöldi að beiðni leigusala vélarinnar. Farþegum sem far áttu með vélinni, ásamt áhöfn, var ekið á hótel í nótt og þeim tilkynnt að vegna „tæknilegra örðugleika“ yrði fluginu frestað. TF-DOG, sem nýkomin var úr flugi frá Frankfurt til Keflavíkur, var send af stað til Montréal.
Samkvæmt áætlun átti kyrrsetta vélin að fara af stað til Keflavíkur klukkan 19.05 að staðartíma í gærkvöldi, og komast því farþegar nú í loftið um 17 tímum á eftir áætlun með annarri vél.
DV segist hafa heimildir fyrir því að búið sé að aflétta kyrrsetningu TF-PRO, en það hefur ekki fengist staðfest.