Hvort ríkisstjórnin væri reiðubúin að draga fjármálaáætlun sína til baka og hvort hún hefði búið sig undir ólíkar sviðsmyndir vegna erfiðleika WOW air var tilefni fyrirspurnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma við upphaf þingfundar í dag.
Bjarni sagði enga þörf á að draga fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til baka enda væri hún byggð á gildandi hagspá og gert ráð fyrir óvissuþáttum í henni. Meðal annars að það gæti kólnað í hagkerfinu. Sagði hann stjórnvöld hafa meðal annars búið sig undir möguleg áföll, kæmi til þeirra, með því að greiða mjög niður skuldir ríksins.
Einnig hefði ríkissjóður verið rekinn með afgangi árum saman. Þannig væru stjórnvöld að búa í haginn með sama hætti og gert hefði verið um árabil. Það væru samt ekki eingöngu neikvæðar fréttir úr efnahagslífinu, eins og með WOW air og loðnubrest, heldur einnig jákvæðar, ýmislegt sem gengi betur en reiknað hafi verið með.
„Ég hef sagt það nokkrum sinnum opinberlega að ég telji ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur eins og þennan. Þess vegna er það ekki hluti af okkar áætlunum að gera neitt slíkt. En hins vegar þurfa stjórnvöld auðvitað að vera viðbúin, ef einhver meiri háttar röskun verður, að huga að orðsporsáhættu sem því gæti fylgt og eins stöðu farþega og hvernig greiða skuli úr ef á þarf að halda. Þær aðstæður hafa ekki enn þá skapast, sem betur fer. En við erum viðbúin því ef það gerist,“ sagði Bjarni.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gerði fjármálaáætlun einnig að umtalsefni sínu og vitnaði í viðtal Bjarna við Bloomberg-fréttaveituna þar sem haft væri eftir fjármálaráðherra að ef kólnaði í efnahagslífinu væri eina leiðin niðurskurður. Spurði hann hvort til greina kæmi að endurskoða skattaútspil ríkisstjórnarinnar vegna kjaraviðræðna og endurskoða útgjaldalið fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar.
Bjarni ítrekaði að fjármálaáætlunin væri byggð á gildandi hagspá. Sagði hann ávallt mega eiga von á því að þegar sérfræðingar greindu frá stöðunni í hagkerfinu mætti ganga út frá því sem vísu að einhverjir þingmenn kæmu í ræðustól Alþingis og segðu að þær upplýsingar væru rangar og þeir sjálfir vissu mikið betur.
Ráðherrann sagði vissulega óvissu fyrir hendi og enmitt þess vegna væri svo mikilvægt að ríkissjóður væri að skila afgangi sem væri mögulegt að ganga á ef á þyrfti að halda. Væri gert ráð fyrir því í áætluninni. Það þyrfti að taka til greina að útgjöld væru að aukast ár frá ári og það þyrfti að endurmeta það ef það færi að hægja á hagkerfinu.