Fjarskiptasjóður styrkir tengingu 1.702 lögbýla og fyrirtækja í sveitum landsins við ljósleiðara á næstu þremur árum. Búast má við að mun fleiri tengist í þessum verkefnum, meðal annars sumarhús og önnur híbýli sem ekki njóta ríkisstyrks.
Þegar þessum verkefnum sveitarfélaganna lýkur verður landsverkefninu Ísland ljóstengt að mestu lokið með nærri 6.000 tengingum. Fjarskiptasjóður ver 450 milljónum á ári í verkefnið, alls 1,3 milljörðum á þremur árum. Að auki veitir ríkið byggðastyrki, samtals að fjárhæð 154 milljónir kr.
Fram til þessa hafa verið veittir styrkir samkvæmt samkeppnisfyrirkomulagi sem leitt hefur til þess að þéttbýl sveitarfélög hafa verið í forgangi. Nú sitja eftir dýrustu svæðin og var fyrirkomulaginu breytt. Nú er sveitarstjórnum gefinn kostur á að gera áætlanir fyrir allt sveitarfélagið með mótframlögum sveitarstjórnar og íbúa og úthlutun dreift á þrjú ár, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi áform í Morgunblaðinu í dag.