Ekki einkasamtal á Klaustri

Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð …
Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð frá vinstri: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Öll tilheyra þau þingflokki Miðflokksins í dag, en Karl Gauti og Ólafur voru áður þingmenn Flokks fólksins en voru reknir úr flokknum eftir að upptökurnar frá kvöldinu á Klaustri voru gerðar opinberar. Samsett mynd

Það er mat meirihluta ráðgefandi siðanefndar, sem forsætisnefnd leitaði til vegna Klaustursmálsins svokallaða, að samtalið, sem átti sér stað á barnum Klaustri 20. nóvember milli sex þingmanna og var tekið upp, geti ekki talist einkasamtal.

Enn fremur kemur fram að ummælin og hegðun þingmannanna sem náðist á upptöku falli undir gildissvið siðareglna þingsins.

Þetta kemur fram í álitinu sem birt var á vef Alþingis í kvöld. Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson, sérstakir varaforsetar Alþingis vegna Klaustursmálsins, óskuðu eftir áliti frá siðanefnd um það hvort gildissvið siðareglna ætti við um það sem gerðist á barnum.

„Alþingismenn eru opinberar persónur, sú háttsemi sem um ræðir átti sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafa verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Þar sem hátternið varðar almenning verður ekki litið á þau atvik sem hér um ræðir sem einkasamtal,“ segir í áliti meirihluta siðanefndar. 

Nefndin áréttar að með þessu er ekki veitt álit á því hvort um brot á siðareglum er að ræða.

Róbert H. Haraldsson skilaði séráliti nefndarinnar. Þar kemur fram að þótt hátterni þingmannanna geti fallið undir gildissvið starfsreglna fyrir þingmenn séu líka efasemdir um það. Hann bendir á að Persónuvernd hafi ekki úrskurðað um málið.

„Það er heldur ekki vandalaust að horfa til inntaks samræðnanna þegar skorið er úr um gildissviðsákvæðið. Umræður þingmannanna bera þess skýr merki að hafa farið fram á ölstofu og eru á köflum sundurlaust raus frekar en alvarlegar samræður um sameiginleg hagsmunamál þjóðarinnar sem eiga brýnt erindi við allan almenning,“ kemur enn fremur fram í áliti Róberts.

Siðanefnd óskaði eftir umsögnum þingmannanna sex vegna málsins. Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, þáverandi þingmenn Flokks fólksins, skiluðu inn sameiginlegri umsögn þar sem þeir sögðu málið snúast um hvort einkasamtal þingmanna, ekki ætlað öðrum, gætu við einhverjar aðstæður talist hluti af opinberri framgöngu þingmanna.

Jafnframt hafna þeir því að hlerun, upptaka og miðlun einkasamtals breyti eðli þess úr því að vera einkamál í það að teljast opinber framganga þeirra sem samtalið áttu.

Í umsögn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Bergþórs Ólasonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Gunnars Braga Sveinssonar kemur fram að stjórnarskráin verndi rétt fólks til að láta skoðanir sínar í ljós. 

„Með því að tjá hugsanir sínar í friðhelgi sé t.d. unnt að tjá reiði til að losa um hana, til að fíflast og tjá spaugilegar hliðar á annars erfiðum málum, til að brýna sig til átaka um viðkvæm mál og jafnvel greina frá óvinsælum skoðunum,“ segir í umsögn þeirra. Stjórnmálamenn hafi ekki síður þörf fyrir það en aðrir og jafnvel frekar.

Enn fremur segir í umsögn þeirra fjögurra að sú friðhelgi sem jafnan ríki um einkasamtöl geri það að verkum að menn telji sig síður þurfa að gæta varfærni þar en annars staðar. „Tungumálið verði kryddaðra, galgopaháttur geri fremur vart við sig og hvers kyns aulahúmor og fíflagangur,“ kemur fram í umsögninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert