Ekki í neinu jarðsambandi

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fyrir miðri mynd.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fyrir miðri mynd. mbl.is/Árni Sæberg

Formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu segir stéttarfélögin sem hafa átt í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins ekki vera í neinu jarðsambandi.

„Mér sýnist fólk ekki vera í neinu jarðsambandi við það sem er að gerast, því miður,“ segir Kristófer Oliversson, formaður FHG og eigandi og framkvæmdastjóri Center Hotels, spurður út í stöðu mála í ljósi þess að viðræðum Samtaka atvinnulífsins við Eflingu, VR, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Landssambands íslenskra verzlunarmanna og Framsýnar við Samtök atvinnulífsins var frestað í morgun vegna erfiðleika WOW air.

Allt stefnir því í nýja verkfallshrinu á fimmtudag og föstudag á hótelum og hjá rútufyrirtækjum.

Eitt af hótelum Center Hotels í Reykjavík.
Eitt af hótelum Center Hotels í Reykjavík.

Gildir fyrir allt samflotið

Kristófer nefnir að þegar einn aðili úr samfloti viðsemjenda SA lýsi því yfir að hann beri ekki ábyrgð á kapítalísku efnahagslífi hljóti sú yfirlýsing að gilda fyrir allt samflotið. Þar á hann væntanlega við ummæli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, í morgun um ástand mála.

Hann bætir við að það hljóti að vera mun erfiðara fyrir WOW air að afla fjár á meðan ferðaþjónustan er í uppnámi. Best væri ef viðsemjendur hefðu haldið áfram sínu striki. „Það eru mikil vonbrigði að ferðaþjónustan almennt og þar með talið atvinnulífið sé komið í þessar ógöngur.“

Kristófer kveðst reikna með verkfalli á fimmtudaginn og hefur vitaskuld áhyggjur af því. „Við höfum áhyggjur af því hvernig er verið að leika sér af fullkomnu ábyrgðarleysi með þessa atvinnugrein,“ segir hann um stöðuna sem upp er komin. 

„Ég hefði viljað sjá þessum verkföllum sleppt og menn myndu semja eins og hefur auðnast að gera síðastliðin tuttugu ár og gengið bærilega með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert