Frestað aftur vegna WOW air

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundi í kjaradeilu Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Landssambands íslenskra verzlunarmanna og Framsýnar við Samtök atvinnulífsins sem hófst klukkan 10:00 í húsakynnum ríkissáttasemjara var frestað til morgundagsins eftir að hann hafði aðeins staðið í um klukkustund en til stóð að fundurinn stæði til fimm.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í samtali við mbl.is að fundinum hafi verið frestað til klukkan 14:00 á morgun að beiðni SA með vísun í óvissuna í kringum WOW air. Sólveig segir að þrátt fyrir að flugfélagið leiki stórt hlutverk í efnahagslífinu geti staða þess og óvissa um hana ekki að hennar mati orðið þess valdandi að vinna við gerð kjarasamninga, sem varði hagsmuni tuga þúsunda einstaklinga, detti niður.

„Þetta er engu að síður staðan,“ segir Sólveig. Kapitalískt efnahagslíf feli í sér óvissu og ef bera eigi fyrir sig óvissu í þeim efnum sé alltaf hægt að vísa í eitthvað slíkt. SA óskaði enn fremur eftir því að verkföllum yrði frestað en þeirri beiðni var hafnað. „Við lítum svo á að engar forsendur séu til þess að ræða það af einhverri alvöru sökum þess að það hefur í raun ekkert mjakast í viðræðum. Það væri óábyrgt í því ljósi að fresta aðgerðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert