„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggst alfarið gegn áformum um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem kynnt hafa verið sveitarfélögum á umliðnum vikum,“ segir í bókun sveitarstjórnarinnar frá 21. mars.
„Samráð um þann grundvallarþátt málsins, hvort stofna skuli þjóðgarð á miðhálendinu, hefur ekki átt sér stað,“ segir sveitarstjórnin. „Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekki ásættanlegt að stjórn og umráð yfir 40% Íslands verði í höndum fárra aðila. Stöðugt er vegið að sjálfstæði landsbyggðarsveitarfélaga og þeim ekki treyst fyrir því landsvæði sem er innan þeirra sveitarfélagsmarka.“
„Þetta er stórmál,“ sagði Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, um þjóðgarðsáformin í umfjöllun um þau í Morgunblaðinu í dag. „Við óttumst að við missum þarna skipulagsvaldið og þjóðgarðurinn muni ráða því í gegnum stjórnunar- og verndaráætlanir hvernig allt á að vera á þessu svæði, verði þjóðgarðurinn að veruleika. Bændur og sveitarfélög eiga þarna upprekstrarrétt sem er óbeinn eignarréttur. Þarna eru líka ýmis hlunnindi, námur, veiðiréttur og þess háttar. Maður óttast að þessi réttindi hverfi. Svo spyr maður sig hvort eitthvað kalli á að þetta svæði sé þjóðgarður?“