Pappírsnotkun Alþingis hefur minnkað jafnt og þétt á undanförnum árum, samkvæmt skriflegu svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata.
Segir í svarinu að til dæmis séu fundargögn á nefndafundum ekki lengur prentuð út heldur séu þau nú aðgengileg rafrænt. Þá segir að Alþingi sé þátttakandi í Grænum skrefum og því sé leitast við að prenta ekki út efni að óþörfu. Þá hafi prenturum verið fækkað og notendur hvattir til að prenta báðum megin á blöðin til að spara pappír.
Í svarinu kemur jafnframt fram að Alþingi hafi eytt 955.558 krónum á síðasta ári í pappírskaup, og að fjöldi keyptra blaða hafi verið 539.500. Þá er pappírsnotkunin sundurliðuð eftir svæðum, og kemur þar meðal annars fram að á prentara sem staðsettur er hjá skrifstofum Pírata hafi verið prentuð út 3.070 blöð, en tveir prentarar á skrifstofusvæðum Miðflokksins prentuðu út samtals 11.949 blöð á síðasta ári.