Ársfundur Veðurstofu Íslands er haldinn í dag undir yfirskriftinni: Nýjar áskoranir - nýjar leiðir. Honum verður streymt á netinu og fást nánari upplýsingar á vefnum vedur.is eða Facebooksíðu Veðurstofu Íslands.
Fundurinn hefst klukkan 9.00 með ávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Þá mun Árni Snorrason, forstjóri, tala um samvinnu, þekkingu, framsækni og áreiðanleika sem hafa verið lykillinn að árangri í tíu ár. Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs, mun fjalla um aukið umfang náttúruvárvöktunar. Sigrún Karlsdóttir náttúruvárstjóri fjallar um hvernig veðursjár bæta þjónustu. Loks mun Jórunn Harðardóttir, framkvæmdastjóri úrvinnslu- og rannsóknarsviðs, tala um nýjar leiðir með öflugri veðurlíkönum á tímum ofurtölva.
Veðurstofan tekur þátt í samstarfi tíu ríkja um úrvinnslu veðurgagna og rekstur ofurtölvu sem staðsett verður á Veðurstofunni. Ísland, Danmörk, Finnland, Svíþjóð, Noregur, Eistland, Lettland, Litháen, Holland og Írland, hafa nú ákveðið að keyra saman veðurlíkön og tilheyrandi ofurtölvur frá árinu 2027.