Áhyggjur af framgöngu Seðlabankans

Gylfi Magnússon er formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands.
Gylfi Magnússon er formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, Gylfi Magnússon, hefur áhyggjur af því hvernig bankinn hélt á máli Samherja en í dag eru nákvæmlega sjö ár frá því húsleit var gerð á skrifstofum fyrirtækisins á Akureyri og Reykjavík nánast í beinni útsendingu á RÚV.

Gylfi er gestur á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem nú stendur yfir.  Hann var meðal annars spurður að því á fundinum hvernig hafi staðið á því að RÚV var á staðnum þegar húsleit var gerð bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Húsleit hjá Samherja á Akureyri.
Húsleit hjá Samherja á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Að sögn Gylfa hefur þetta verið rætt í bankaráðinu en það ekki fengið skýringar á því. Hann segir að það læðist að þeim grunur um að einhver hafi lekið upplýsingum til RÚV en ekki komið fram hver það er. Umboðsmaður Alþingis hafi fengið einhverjar upplýsingar þar um og mikilvægt að þetta verði upplýst að sögn formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands og segir hann ólíðandi að fjölmiðlar séu nánast með beinar útsendingar frá slíkum aðgerðum. 

Þorsteinn Már Baldvinsson.
Þorsteinn Már Baldvinsson. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

„Í þeim eina tilgangi að skaða fyrirtækið“

„Í dag eru nákvæmlega sjö ár frá því að Seðlabanki Íslands, með fulltingi fjölmiðla, réðst í húsleit hjá Samherja. Samhliða sendi bankinn fréttatilkynningu út um allan heim um húsleitina og nafngreindi Samherja, í þeim eina tilgangi að skaða fyrirtækið og auka fælingarmátt gjaldeyrishaftanna. Eftir skoðun sérstaks saksóknara, skattrannsóknarstjóra, dómstóla, bankaráðs seðlabankans og umboðsmanns Alþingis er ljóst að ekkert hæft var í ásökunum bankans auk þess sem stjórnsýsla bankans er í molum.

Frá þessum örlagaríka degi hefur Seðlabanki Íslands, með seðlabankastjóra í broddi fylkingar, ítrekað gengið í skrokk starfsmanna Samherja með röngum sakargiftum og ekki slegið af þó sýnt sé fram á hið gagnstæða.

Á þessum tímamótum tel ég því rétt að rifja upp upphafið að þessari herferð bankans sem vonandi mun taka enda með afgreiðslu forsætisráðherra sem vænta má fljótlega.

Órökstuddur grunur

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að seðlabankastjóri hefur nú í tvígang staðfest opinberlega að hann hafi ekki haft rökstuddan grun um brot þegar bankinn ákvað að fara í húsleit hjá Samherja. Sakamálalögin eru skýr og afdráttarlaus um að skilyrði húsleitar er rökstuddur grunur. Að öðrum kosti er húsleit ekki heimil. Lögin eru einföld um þetta efni og því ljóst að Seðlabankinn blekkti dómstóla vísvitandi til að veita sér húsleitar- og haldlagningarheimildir. Rétt er að halda því til haga að undir húsleitarkröfuna rituðu Arnór Sighvatsson, þáverandi aðstoðarseðlabankastjóri, og Ingibjörg Guðbjartsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits bankans og lögfræðingur. Rannveig Júníusdóttir, núverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins sem einnig er lögfræðingur, flutti málið fyrir héraðsdómi.

Það eru þung orð að ásaka einhvern um blekkingar og því tel ég rétt að birta kröfugerð Seðlabanka Íslands og þau gögn sem fylgdu henni. Þeir sem stóðu að þessari kröfugerð voru hámenntaðir lögfræðingar og doktorar í hagfræði. Langskólagengið fólk sem veit hvað það var að gera. Annað er útilokað. Þetta get ég ekki talið annað en grófa misnotkun valds sem á að svara með því að láta þetta sama fólk axla ábyrgð.

Rangt reiknað

Þá tel ég einnig rétt að birta tölvupóst fyrrum framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins dags. 18. ágúst 2017, en þar staðfesti hann að það væri óumdeilt að útreikningarnir sem seðlabankinn byggði á í héraðsdómi til að fá húsleitarheimild, voru rangir. Sá sem bar ábyrgð á þessum útreikningum var Arnór Sighvatsson sem nú lætur sér hugkvæmast að sækja um stöðu seðlabankastjóra.

Ég læt hér jafnframt fylgja gögnin sem Rannveig Júníusdóttir lagði fram fyrir héraðsdóm og rökstuddi ranglega að uppfyllt væru skilyrði sakamálalaga fyrir því að Seðlabanki Íslands fengi húsleitarheimild.

Þá vil ég sérstaklega benda á að kröfugerðinni var á sínum tíma beint að meðal annars fyrirtækjum sem hvorki áttu gjaldeyrisreikninga eða stunduðu viðskipti við útlönd eða fisksölu af neinu tagi. Þá náði krafan einnig til nokkurra fyrirtækja sem hafa aldrei tengst Samherja á nokkurn hátt. Eitt þeirra þriggja var félagið Stocznia Gdynia sem var á þessum tíma í slitameðferð og í eigum pólska ríkisins. Væri forvitnilegt ef seðlabankastjóra yrði gert að standa skil á því hvernig þessi félög rötuðu í kröfugerðina og hvaða grunur, rökstuddur eða ekki, beindist að þeim.

Stjórnendur Seðlabanka Íslands hafa aldrei geta viðurkennt að þau hófu þetta mál á röngum forsendum og hafa reynt að halda lífi í málinu og ásökunum í sjö ár og þannig aukið ranglega og vísvitandi skaðann. Sú staðreynd að það tók Hæstarétt ekki nema tvo daga að staðfesta niðurfellingu stjórnvaldssektarinnar með sex orðum sýnir að ákvörðun Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Sigríðar Logadóttur, yfirlögfræðings bankans, um áfrýjun var eingöngu tekin með það að markmiði,“ segir í texta sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja ritar á vef fyrirtækisins í morgun.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Hefur kostað himinháar fjárhæðir

Gylfi Magnússon segir að það sé í höndum bankans sjálfs að eiga frumkvæði að viðræðum við þá sem hafa orðið fyrir tjóni vegna málsins. Eðlilegt sé að Seðlabankinn hafi það frumkvæði. 

Ekki liggur fyrir hvort eða þá hverjir muni fara fram á skaðabætur en mér þætti eðlilegt að bankinn hefði frumkvæði að slíkum viðræðum. Hvort sem óskir koma fram um það eða ekki, segir Gylfi í svari við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Gylfi segist deila áhyggjum Sig­urðar Kára Kristjáns­son­ar og Þór­unn­ar Guðmunds­dótt­ur sem einnig sitja í bankaráði Seðlabankans, varðandi afskipti bankans af störfum bankráðsins.

„Þetta var mjög óheppilegt og í raun mjög skrýtið,“ segir Gylfi. Hann segir að í minnisblaðinu sé ýmislegt sem hann telji að standist ekki skoðun. Að ráðinu væri beinlínis óheimilt að svara forsætisráðherra og það rökstutt með ansi langsóttum hætti. Meðal annars að málefni gjaldeyriseftirlitsins féllu undir fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki forsætisráðuneytið. Við auðvitað nánast hunsuðum þetta álit, segir Gylfi og bætir við að það hafi komið stuttlega til umræðu á bankaráðsfundi en ekki urðu önnur viðbrögð af hálfu bankaráðsins fyrr en bókunin var lögð fram.

„Ég vil hins vegar halda því til haga að bankinn að öðru leyti reyndi ekki á nokkurn hátt að koma í veg fyrir að við lykjum þessari vinnu,“ segir Gylfi og að þetta minnisblað hefði aldrei átt að leggja fram.

Af­skipti Seðlabanka Íslands af störf­um bankaráðs Seðlabank­ans í tengsl­um við vinnslu grein­ar­gerðar sem for­sæt­is­ráðherra óskaði eft­ir vegna dóms Hæsta­rétt­ar Íslands um mál bank­ans gegn Sam­herja voru „ófor­svar­an­leg“ og viðbrögð Seðlabank­ans eft­ir dóm Hæsta­rétt­ar nóv­em­ber og eft­ir að umboðsmaður Alþing­is skilaði áliti sínu fyr­ir rúmri viku „eru ekki til merk­is um að stjórn­end­ur bank­ans taki til sín þá al­var­legu gagn­rýni sem þar kom fram“.

Þetta seg­ir í harðorðri bók­un bankaráðsmanna Seðlabank­ans, þeirra Sig­urðar Kára Kristjáns­son­ar og Þór­unn­ar Guðmunds­dótt­ur, sem birt var sam­hliða grein­ar­gerð bankaráðsins í gær. Þau gera al­var­leg­ar at­huga­semd­ir við fram­göngu Seðlabank­ans vegna vinnu bankaráðs, sem ráðist var í að beiðni for­sæt­is­ráðherra.

Að sögn Gylfa tekur bankaráðið undir orð umboðsmanns Alþingis varðandi framgöngu Seðlabanka Íslands í málinu og að stjórnvaldssektin yrði felld niður. Hann segir að bankaráðið hafi setið tugi funda um Samherjamálið áður en hann sjálfur settist í bankaráð Seðlabankans í fyrra og að bankaráðið hafi áfram fjallað um málið.

Varðandi stöðu seðlabankastjóra segir Gylfi að aðgerðir bankans á þessum tíma séu að verða sagnfræði þar sem fjármagnshöftin eru að mestu farin og því ekki spurning um hvernig haldið verði á þessu næstu mánuði. Líkt og fram hefur komið mun Már Guðmundsson láta af starfi seðlabankastjóra í sumar. 

„Því er ekki að neita að ég, og ég geri ráð fyrir að það sama eigi við um aðra bankaráðsmenn, hef áhyggjur og ég geri ráð fyrir að aðrir bankaráðsmenn deili þeim áhyggjum með mér, af því hvernig bankinn hélt á þessu máli. Það er svo annað mál að fjármagnshöftin eru að mestu farin þannig að þetta er að því leytinu til sagnfræði,“ segir Gylfi. Það reyni einfaldlega ekki á það lengur hvort bankaráðið treysti seðlabankastjóra að halda utan um fjármagnshöftin eður ei.

Sagnfræðin verður rándýr ef skaðabótakrafa kemur fram, sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, á fundi nefndarinnar og spurði Gylfa hvort staða seðlabankastjóra verði skoðuð ef það kemur fram skaðabótakrafa af hálfu Samherja.

Gylfi segir að nú þegar hafi gríðarlegur kostnaður fallið til vegna málsins. Málið hafi kostað Seðlabankann himinháar fjárhæðir sem og þá sem hafa þurft að verjast aðgerðum Seðlabankans. Þannig er samfélagslegur kostaður af þessu verulegur jafnvel áður en við förum að ræða skaðabætur, sagði Gylfi við nefndarmenn.  

Nánast um líf eða dauða að tefla

Ljóst er að Seðlabankinn var engan veginn undir það búinn að framfylgja fjármagnshöftum þegar þau voru lögð á nánast fyrirvaralaust haustið 2008. Við vinnuna þurfti bankinn að byggja á óburðugu regluverki sem hafði hvorki verið prófað í framkvæmd né af réttarkerfinu. Að því leyti var Seðlabankinn í verri stöðu en aðrar innlendar eftirlitsstofnanir sem alla jafna geta byggt alla sína vinnu á fjölda fordæma bæði hérlendis og erlendis, segir Gylfi.

Meðal þess sem nú liggur fyrir er að engar nothæfar refsiheimildir virðast hafa verið til staðar vegna brota gegn höftunum í nær þrjú ár. Eða allt frá upphafi þeirra og þangað til lög tóku gildi í september árið 2011.

„Gallar á refsiheimildunum blöstu ekki við í hamaganginum í upphafi,“ segir Gylfi og um það sé ekki deilt.

Þótt starfsfólk og stjórnendur Seðlabankans hafi gert sitt besta og um það efast Gylfi ekki þá blasi við að það hafi ekki tekist að öllu leyti vel og að sumu leyti mjög illa. Í efnahagslegum skilningi tókst að láta höftin virka og það skipti þjóðarbúið höfuðmáli. Þannig tókst að tryggja greiðslumiðlun og viðskipti Íslands á milli landa. Þar var nánast um líf eða dauða að tefla fyrir íslenska hagkerfið enda hefði samdráttur þess og skerðing lífskjara orðið miklu alvarlegri ef ekki hefði tekist að tryggja eðlilega viðskipti milli landa. Til þess þarf augljóslega gjaldeyrisviðskipti, segir Gylfi.

Þegar lagt er mat á hvernig til tókst er nauðsynlegt að hafa þetta í huga, sagði Gylfi við upphaf fundar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.

Mistök voru gerð

Þeir sem stóðu í eldlínunni við að verja fjármagnshöftin voru í raun að vinna verkefni sem skipti sköpum fyrir þjóðarhag. Það skýrir ákvarðanir og atburðarrás að nokkru marki en afsakar vitaskuld ekki allt sem gert var, segir Gylfi. Mistök voru gerð og þau höfðu alvarlegar afleiðingar. Það tókst þó að fá höftin til að virka en vitaskuld ekki fullkomlega. Þau láku án efa. En nógu vel til þess að hægt var að stunda nógu eðlileg utanríkisviðskipti og kostur var á. Jafnframt að gera upp og ganga frá hinum gríðarlegu skuldum sem hvíldu á fjölda innlendra fyrirtækja, sérstaklega hinum föllnu bönkum, án þess þó að markaðurinn fyrir hina íslensku krónu færi á hliðina. Hins vegar tókst ekki jafnvel til um setningu og framfylgd haftanna að ýmsu öðru leyti. Sérstaklega vekur athygli að málarekstri vegna meintra brota á höftunum hefur nánast að öllu leyti verið hafnað af dómstólum eða saksóknurum. Þá hefur þeim stjórnvaldssektum sem bankinn hefur lagt á verið hnekkt þegar á þær hefur verið látið á reyna.

Jafnframt hefur stjórnsýslan varðandi höftin verið harðlega gagnrýnd, segir Gylfi og talar þar sérstaklega um Samherjamálið.

Eðlilegt er að skoða hvort Seðlabankinn taki alla vinnu sína varðandi höftin til gaumgæfilegrar skoðunar og dragi af henni eðlilegan lærdóm. Bankaráðið telur rétt að skoðuð verði framganga bankans í garð þeirra sem sættu rannsókn vegna hugsanlegra brota á höftunum, segir Gylfi og segir að þetta eigi eðlilega við í máli Samherja.

Við slíka skoðun ber að sjálfsögðu að hafa í huga fjölmargar alvarlegar ábendingar umboðsmanns Alþingis auk dómara og saksóknara í málum tengdum fjármagnshöftunum.

Bankaráðið telur, að fenginni reynslu undanfarinna ára, að Seðlabankinn þurfi að búa sig fyrir fram undir að grípa þurfi til aðgerða eins og fjármagnshafta. Það ætti að vera eðlilegur hluti af viðleitni hans til að halda fjármálastöðugleika og bregðast við áföllum. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að fjármálakrísur eru því miður óhjákvæmilegur fylgifiskur nútímans.

Slíkur undirbúningur er aftur á móti ekki bara hlutverk Seðlabankans heldur einnig löggjafans, ráðuneyta, viðskiptabanka og fleiri aðila, segir Gylfi.

Hluti af skýringunni á vandræðaganginum í kringum fjármagnshöftin er að slík vinna hafði ekki verið unnin í aðdraganda hrunsins árið 2008 eða að minnsta kosti ekki nógu vel.

Þrátt fyrir slíkan undirbúning hefðu fjármagnshöftin verið afar erfið í framkvæmd í opnu hagkerfi, segir hann.

Að sögn Gylfa bendir ýmislegt til þess að fyrirhugaðri sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins geti fylgt ýmsir ókostir. Það er mjög eðlisólík starfsemi sem um er að ræða. Annars vegar eftirlitsstofnun og beiting refsiheimilda og hins vegar að vera banki bankanna og móta peningastefnu. Stuðla þannig að stöðuleika. Sameinuð stofnun þarf að geta gegnt báðum hlutverkunum og raunar fleirum vel án þess að annað hlutverk flækist fyrir hinu. Nýtt stjórnskipulag verður að taka mið af því.  

Bankaráð Seðlabankans gegnir eftirlitshlutverki líkt og lög segja til um en það á ekki að stýra framgöngu bankans í einstökum refsimálum eða vera eins konar áfrýjunarnefnd, segir Gylfi.

Fréttin verður uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert