Sex þingmenn Miðflokksins sem fjallað er um í áliti siðanefndar um Klaustursmálið hafa frest til 2. apríl til að bregðast við álitinu. Álitið lýtur að ummælum sex þingmanna á veitingastofunni Klaustur bar 20. nóvember 2018 og mögulegu broti þeirra á siðareglum fyrir alþingismenn.
Álitið var birt fyrir mistök á vef Alþingis í gærkvöldi og var tekið út af vef Alþingis skömmu síðar. Nú hefur það aftur verið birt í heild sinni. Í áliti nefndarinnar sem Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson, sem bæði gegna hlutverki varaforseta á Alþingi, kölluðu eftir kemur m.a. fram að samtalið sem átti sér stað á barnum Klaustri 20. nóvember milli sex þingmanna, og náðist á upptöku, geti ekki talist einkasamtal.
Þingmenn Miðflokksins gagnrýndu birtinguna harðlega og segja hana ganga gegn stjórnsýslulögum en álitið var birt kl. 19, sex mínútum seinna en Steinunni barst póstur þar sem þess var óskað að birtingu álitsins yrði frestað.
Á vef Alþingis kemur fram að forsætisnefnd, skipuð 7. og 8. varaforseta, taki ákvörðun um frekara framhald málsins. Fjórir þingmenn Miðflokksins sögðu í yfirlýsingu í gærkvöldi að fyrir liggi „nýjar og veigamiklar upplýsingar sem sýna að mat siðanefndarinnar væri byggt á röngum forsendum“. Ekki liggur fyrir hvað felst í þessum upplýsingum.
Á vef Alþingis er jafnframt greint frá því að nefndarmenn í siðanefnd munu ekki gefa kost á viðtölum við fjölmiðla um það sem fram kemur í álitinu.