Úthlutun Landsáætlunar sem þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynntu í Hannesarholti í dag, tekur til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið.
Er markmiðið með úthlutuninni að halda áfram þeirri uppbyggingu innviða, sem þegar er hafin, „til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum, sem og uppbyggingar ferðamannastaða“ að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Verkefnin sem ráðherrarnir nefndu í kynningu sinni eru af ýmsum toga. Er uppbygging þegar hafin við sum og eru nokkur þeirra nefnd hér að neðan.
Umhverfi Snorralaugar hefur látið mjög á sjá vegna mikillar umferðar ferðamanna. Er nú unnið að því að lagfæra skemmdir og styrkja umgjörð laugarinnar, sem og annarra minja á Reykholtssvæðinu.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Snæfellsnesþjóðgarði undanfarið, m.a. með framkvæmdum við gestastofu við Malarrif og uppbyggingu og undirbúningi margvíslegra innviða við Djúpalónssand. Fram undan er svo að bæta göngustíg við Öndverðarnes, stækka og malbika bílastæði við Skarðsvík og setja upp útsýnispalla við Saxhól og Svalþúfu.
Innviðauppbygging við fossinn Dynjanda hefur einnig verið mikil og á henni þörf svo hægt sé að takast á við stóraukna umferð ferðamanna. Í fyrrasumar var bílastæði við rætur fossins tekið myndarlega í gegn og á næstu mánuðum mun rísa nýtt salernishús sem, að því er segir í tilkynningu „mun bylta hreinlætisaðstöðu staðarins“. Meðal fyrirhugaðra framkvæmda á næstu misserum eru svo endurbætur á göngustígum og nýir útsýnispallar.
Litlibær í Skötufirði er þá friðað mannvirki við Ísafjarðardjúp sem komið er í umsjá ríkisins. Þörf er fyrir aðstöðu fyrir ferðafólk á þessu svæði og meðal þeirra verkefna sem ýmist eru hafin eða á döfinni næstu misserin eru skipulag, hönnun og uppbygging þjónustuhúss í endurbyggðri hlöðu við Litlabæ, bættar merkingar og lagning göngustíga.
Við klettinn Hvítserk við Vatnsnes í Húnafirði er svo búið að hanna tröppur frá útsýnispalli og niður í fjöru, sem á að bæta aðgengi og auka öryggi ferðafólks. Fram undan er að smíða tröppurnar og setja upp.
Mikill fjöldi ferðamanna kemur í Dimmuborgir árlega og hafa fjölförnustu göngustígarnir verið malbikaðir til að vernda hraunið og aðrir stígar verið endurbættir. Fyrir dyrum stendur svo að koma upp sérstökum útsýnisstöðum og að leggja göngu- og hjólaleið inn á staðinn frá þjóðveginum.
Hjólaleið er einnig á áætlun fyrir Jökulsárgljúfur, en mikil aukning hefur orðið í hjólaumferð um svæðið undanfarin ár. Er verkefnið fyrsti áfangi þess að leggja skilgreinda hjóla- og reiðleið frá Ási við Ásbyrgi suður með Jökulsárgljúfrum að Dettifossi.
Þá er á dagskrá að leggja göngubrú við Geldingafell yfir ána Blöndu, auk stígagerðar á svæðinu og einnig má nefna að við Teigarhorn stendur til að ráðast í uppbyggingu þjónustuhúss í samstarfi ríkis og sveitarfélags, sem og í öryggis- og verndaraðgerðir á svæðinu.