Stjórn Íslenska flugmannafélagsins hefur í ljósi „óvæginnar umfjöllunar íslenskra fréttamiðla um WOW air undanfarið“ óskað eftir rannsókn Blaðamannafélags Íslands á hlunnindum og sporslum til blaðamanna frá helsta samkeppnisaðila WOW air.
Þetta kemur fram í bréfi stíluðu á Hjálmar Jónsson, formann Blaðamannafélagsins, sem einnig var sent á fjölmiðla.
Íslenska flugmannafélagið er stéttarfélag flugmanna WOW air og í bréfi þess segir að óskað sé eftir rannsókninni með tilliti til gagnsæis blaðamanna gagnvart lesendum sínum.
Engin sérstök dæmi eru þó nefnd í bréfi ÍFF til Hjálmars.
Enn fremur vill ÍFF láta kanna heimildaröflun íslenskra blaðamanna um málefni WOW air hverju sinni, „þar sem margir þeirra reiða sig m.a. á upplýsingar frá bloggara, búsettum í Svíþjóð, sem er sjálfskipaður helsti sérfræðingur Íslands og oftar en ekki vitnað í órökstuddar hugleiðingar hans.“
Þó að umræddur bloggari sé ekki nafngreindur í bréfi ÍFF er augljóst að þarna er um að ræða Kristján Sigurjónsson, ritstjóra Túrista.is.