„Áskorun fyrir efnahagslífið“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það mikil vonbrigði að endurskipurlagning WOW …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það mikil vonbrigði að endurskipurlagning WOW air hafi ekki tekist. Hún sést hér með Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir gjaldþrot WOW air ekki koma á óvart í ljósi þeirra þrenginga sem félagið hefur gengið í gegnum undanfarið. Niðurstaðan sé hins vegar mikil vonbrigði. „Þetta er auðvitað högg fyrir starfsfólk WOW og fólk sem hefur byggt afkomu sína á starfsemi þessa félags. Hugur okkar er hjá þessu fólki,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

„Félagið hefur oft komið á óvart í þessum þrengingum og bjargað sér fyrir horn. Þetta kom því ekki á óvart en auðvitað eru það mikil vonbrigði að þetta skyldi fara svona, að þessi endurskipulagning myndi ekki takast,“ segir hún jafnframt.  

Katrín segir að allt frá því að fyrstu fregnir af fjárhagserfiðleikum WOW air hafi borist í haust hafi ríkisstjórnin haft þær til hliðsjónar, til dæmis við gerð fjármálaáætlunar, en Katrín tekur undir orð fjármálaráðherra um að endurskoða þurfi áætlunina í ljósi tíðinda dagsins.

Hafa ákveðið svigrúm til að bregðast við

„Fjármálaáætlunin núna sem liggur fyrir þinginu gerir ráð fyrir kólnun í hagkerfinu. Þetta er áskorun fyrir efnahagslífið en hagkerfið er mjög vel í stakk búið til að takast á við þessa áskorun,“ segir Katrín og bendir í því samhengi á að skuldastaða ríkisins sé góð og að lánskjör ríkisins hafi aldrei verið betri. „Við erum að skila ríkissjóði með afgangi samkvæmt okkar áætlunum og höfum ákveðið svigrúm til að bregðast við.“

Ráðherranefnd um samræmingu mála hefur fundað reglulega um stöðu WOW air frá því í haust og þegar tilkynnt var í morgun að flugfélagið hafði skilað inn flugrekstrarleyfinu var viðbragðshópur stjórnvalda virkjaður sem og viðbragðsáætlun.

„Viðbragðshópurinn var virkjaður um leið og þetta lá fyrir og hann hefur haft yfirsýn yfir það hvernig hefur gengið að koma farþegum á milli staða og það eru ákveðnir ferlar sem virkjast og við erum að sjá að þetta hefur gengið ágætlega framan af degi,“ segir Katrín, en bætir við að það muni taka nokkra daga að leysa úr málum þeirra um það bil 4.000 farþega sem lentu í vandræðum þegar öllu flugi WOW air í dag var aflýst. „Okkar hlutverk er fyrst og fremst að hafa yfirsýn og miðla upplýsingum,“ segir Katrín.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ekki verið boðaðir á frekari fundi í dag vegna gjaldþrots WOW air en ríkisstjórnin kemur saman á reglubundnum ríkisstjórnarfundi í fyrramálið og segir Katrín að staðan í flugmálum verði að sjálfsögðu rædd á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert