Endurskoða líklega tekjuáætlun

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eftir fund ríkisstjórnarinnar í Stjórnarráðinu …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eftir fund ríkisstjórnarinnar í Stjórnarráðinu í morgun vegna gjaldþrots WOW air. mbl.is/​Hari

„Þetta er ákveðið áfall, en við erum hins vegar með mikinn viðnámsþrótt, við stöndum sterk og getum tekist á við þetta,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is

Líkt og flestir landsmenn fékk Bjarni fregnir af því að WOW air hafi skilað inn rekstrarleyfi sínu í morgun.

„Það eru vonbrigði að það hafi ekki tekist að tryggja rekstargrundvöll félagsins og ljóst að það eru mjög margir sem verða fyrir neikvæðum áhrifum af því,“ segir Bjarni. Stjórnvöld hafa virkjað viðbragðsáætlun sem felst fyrst og fremst að aðstoða þá um það bil 4000 farþegar sem hafa orðið fyrir áhrifum af rekstrarstöðvuninni.

Bjarni segir að áhrif rekstrarstöðvunar WOW air verði nokkur og að stjórnvöld þurfi til að mynda að endurskoða tekjuáætlun sína sem og að gera ráðstafanir vegna aukins fjölda á atvinnuleysisskrá, en Bjarni segir að það verði til skamms tíma. „Það er ekki víst að tekjuáætlun okkar geti staðið óbreytt, við gætum þurft að endurskoða hana og mér finnst það mjög líklegt.“

Þá segir hann að stjórnvöld verði að fara vel ofan í saumana á því hvaða efnahagslegu áhrif þetta mun hafa. „Ég tel að þau verði ekki eins mikil og menn óttuðust fyrst um sinn og þá er ég að vísa til þess þegar það var ljóst undir lok síðasta árs að það væru rekstrarerfiðleikar.“

Mun líklega draga úr hagvexti

Bjarni ítrekar að ríkissjóður sé mjög vel í stakk búinn til að takast á við áfall eins og rekstrarstöðvun WOW air sé. „Ég vísa þar meðal annars í mjög góða afkomu sem lagt er með strax á næsta ári í fjármálaáætluninni. En það er ekki tímabært að segja hver áhrifin verða nákvæmlega, við þurfum að leggjast vel yfir það. Mér finnst hins vegar líklegt að það muni eitthvað draga úr hagvexti en það verður ekki dramatískt.“

Til skoðunar er meðal stjórnvalda að virkja aðra viðbragðsáætlun í samstarfi við ferðaþjónustuna um framtíð hennar, að sögn Bjarna. „Við vitum að það eiga margir mikla hagsmuni af því að ferðaþjónustan vaxi áfram og dafni og mín skoðun er sú að tækifærin eru öll til staðar. Ísland hefur mjög sterka og góða ímynd sem við getum byggt á til framtíðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert