Fall WOW hafi neikvæð áhrif á hagvöxt

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að getan til að milda áföll …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að getan til að milda áföll sé nú mögulega meiri en nokkru sinni í sögu Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri gerði gjaldþrot flug­fé­lags­ins WOW air m.a. að um­tals­efni í síðustu ræðu sinni sem seðlabanka­stjóri á árs­fundi seðlabank­ans nú síðdeg­is, en hann læt­ur af störf­um lög­um sam­kvæmt í ág­úst.

Már sagði ljóst að fall flug­fé­lags­ins myndi hafa nei­kvæð áhrif á hag­vöxt, sér­stak­lega á þessu ári. Ekki væri þó víst að það eitt og sér myndi leiða til sam­drátt­ar. Sagði hann að viðnámsþrótt­ur væri nú mik­ill til að bregðast við áföll­um.

Yf­ir­vof­andi áhætta hafi nú raun­gerst

„Í morg­un bár­ust frétt­ir af falli flug­fé­lags­ins WOW. Þar með hef­ur raun­gerst hluti af þeirri áhættu sem þjóðarbú­skap­ur­inn hef­ur staðið frammi fyr­ir að und­an­förnu,“ sagði Már og bætti við að síðastliðið haust hefði bank­inn lagt mat á mögu­leg efna­hags­áhrif falls flug­fé­lags­ins.

„Ljóst var að áhrif­in á þjóðarbúið myndu að veru­legu leyti velta á því í hvaða mæli og hversu hratt önn­ur flug­fé­lög myndu fylla í skarðið. Grein­ing­in miðaðist við stærð og um­svif WOW á ár­inu 2017, en gróf­lega má áætla að þau hafi verið orðin um helm­ingi minni þegar gjaldþrot fé­lags­ins átti sér stað,“ sagði hann. Það væri eigi að síður ljóst að fall WOW myndi hafa nei­kvæð áhrif á hag­vöxt, sér­stak­lega á þessu ári.

„Ólík­legt er þó að það eitt og sér nægi til að það verði bein­lín­is sam­drátt­ur á ár­inu. Þetta áfall kem­ur hins veg­ar í fram­haldi af öðrum áföll­um, eins og loðnu­bresti.“

Góð geta þjóðarbús­ins til að tak­ast á við áföll 

Þá nefndi Már að til staðar væri áhætta sem ekki hefði raun­gerst, t.d. í tengsl­um við mögu­lega niður­stöðu kjara­samn­inga sem sam­rýmd­ist ekki verðstöðug­leika. Einnig vísaði hann til stöðu mála vegna Brex­it. „Raun­ger­ist sú áhætta yrði hag­vöxt­ur enn minni og ekki hægt að úti­loka ein­hvern tíma­bund­inn sam­drátt,“ sagði Már.

„Í þessu sam­hengi skipt­ir það miklu að við búum nú yfir meiri viðnámsþrótti og getu til að milda áföll en kannski nokkru sinni í sögu okk­ar. [...] Hér er um að ræða getu þjóðarbús­ins og fjár­mála­kerf­is­ins til að tak­ast á við áföll vegna ágætr­ar ytri stöðu, stórs gjald­eyr­is­forða og til­tölu­lega góðrar eig­in­fjár­stöðu heim­ila og fyr­ir­tækja,“ sagði Már. Einnig væri staða bank­anna nú sterk.

„Þá er svig­rúm hag­stjórn­ar til að bregðast við tölu­vert og mun meira en víða um heim. Það er af­gang­ur á rík­is­sjóði og skuld­ir hins op­in­bera eru litl­ar í sögu­legu sam­hengi. Svig­rúm til lækk­un­ar vaxta er hér mikið ef aðstæður kalla á, ólíkt mörg­um viðskipta­lönd­um, þar sem þeir eru tölu­vert fyr­ir ofan núll hér á landi,“ sagði Már.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka