Fall WOW hafi neikvæð áhrif á hagvöxt

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að getan til að milda áföll …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að getan til að milda áföll sé nú mögulega meiri en nokkru sinni í sögu Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Már Guðmundsson seðlabankastjóri gerði gjaldþrot flugfélagsins WOW air m.a. að umtalsefni í síðustu ræðu sinni sem seðlabankastjóri á ársfundi seðlabankans nú síðdegis, en hann lætur af störfum lögum samkvæmt í ágúst.

Már sagði ljóst að fall flugfélagsins myndi hafa neikvæð áhrif á hagvöxt, sérstaklega á þessu ári. Ekki væri þó víst að það eitt og sér myndi leiða til samdráttar. Sagði hann að viðnámsþróttur væri nú mikill til að bregðast við áföllum.

Yfirvofandi áhætta hafi nú raungerst

„Í morgun bárust fréttir af falli flugfélagsins WOW. Þar með hefur raungerst hluti af þeirri áhættu sem þjóðarbúskapurinn hefur staðið frammi fyrir að undanförnu,“ sagði Már og bætti við að síðastliðið haust hefði bankinn lagt mat á möguleg efnahagsáhrif falls flugfélagsins.

„Ljóst var að áhrifin á þjóðarbúið myndu að verulegu leyti velta á því í hvaða mæli og hversu hratt önnur flugfélög myndu fylla í skarðið. Greiningin miðaðist við stærð og umsvif WOW á árinu 2017, en gróflega má áætla að þau hafi verið orðin um helmingi minni þegar gjaldþrot félagsins átti sér stað,“ sagði hann. Það væri eigi að síður ljóst að fall WOW myndi hafa neikvæð áhrif á hagvöxt, sérstaklega á þessu ári.

„Ólíklegt er þó að það eitt og sér nægi til að það verði beinlínis samdráttur á árinu. Þetta áfall kemur hins vegar í framhaldi af öðrum áföllum, eins og loðnubresti.“

Góð geta þjóðarbúsins til að takast á við áföll 

Þá nefndi Már að til staðar væri áhætta sem ekki hefði raungerst, t.d. í tengslum við mögulega niðurstöðu kjarasamninga sem samrýmdist ekki verðstöðugleika. Einnig vísaði hann til stöðu mála vegna Brexit. „Raungerist sú áhætta yrði hagvöxtur enn minni og ekki hægt að útiloka einhvern tímabundinn samdrátt,“ sagði Már.

„Í þessu samhengi skiptir það miklu að við búum nú yfir meiri viðnámsþrótti og getu til að milda áföll en kannski nokkru sinni í sögu okkar. [...] Hér er um að ræða getu þjóðarbúsins og fjármálakerfisins til að takast á við áföll vegna ágætrar ytri stöðu, stórs gjaldeyrisforða og tiltölulega góðrar eiginfjárstöðu heimila og fyrirtækja,“ sagði Már. Einnig væri staða bankanna nú sterk.

„Þá er svigrúm hagstjórnar til að bregðast við töluvert og mun meira en víða um heim. Það er afgangur á ríkissjóði og skuldir hins opinbera eru litlar í sögulegu samhengi. Svigrúm til lækkunar vaxta er hér mikið ef aðstæður kalla á, ólíkt mörgum viðskiptalöndum, þar sem þeir eru töluvert fyrir ofan núll hér á landi,“ sagði Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert