Gætu þurft að bíða í 4 mánuði

mbl.is/​Hari

Farþegar sem áttu bókað og höfðu greitt fyrir flugferð með WOW air gætu þurft að bíða allt að fjóra mánuði eftir að fá flugmiða sína endurgreidda. 

Bæði Valitor og Borgun hefur borist fjöldi fyrirspurna vegna endurgreiðslna síðan tilkynnt var um að WOW air væri hætt starfsemi. „Það er farið að berast töluvert af fyrirspurnum og við búumst við þeim næstu daga og vikur,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors, í samtali við mbl.is.

Hann segir að auk þess sem fjöldi endurkrafa geti haft áhrif á endurgreiðslutíma spili það ferli sem fer af stað við gjaldþrot einnig inn í. „Það gæti skipt máli hvernig ferlið er hvað varðar skiptastjóra og annað. Það er verið að skoða það, en ég held að fólk ætti að búa sig undir að þurfa að bíða í 3 til 4 mánuði eftir endurgreiðslu, en það verður vonandi fyrr.“

Mikið álag næstu mánuðina

Hjá Borgun er ávallt miðað við að endurgreiðsla vegna endurkröfu berist innan 120 daga og segir Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Borgunar, að einnig sé miðað við þann tímaramma nú.

„Það er mikið álag á símaverði og verður mikið álag á endurkröfudeildinni næstu mánuðina sýnist mér,“ segir Sæmundur í samtali við mbl.is. „Við byrjum væntanlega ekki að vinna þetta fyrr en þrotabússtjóri gefur heimild, en það er allt of snemmt að segja til um það hvað þetta tekur langan tíma.“

„Nú þarf fólk bara að senda inn endurkröfu og vera þolinmótt. Þetta hefur sinn gang.“

Borgun og Valitor hafa bæði sent frá sér tilkynningar með leiðbeiningum til farþega. Hægt er að lesa leiðbeiningar Borgunar hér og leiðbeiningar Valitors hér.

Bæði Valitor og Borgun hefur borist fjöldi fyrirspurna vegna endurgreiðslna …
Bæði Valitor og Borgun hefur borist fjöldi fyrirspurna vegna endurgreiðslna síðan tilkynnt var um að WOW air væri hætt starfsemi. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert