„Þetta er stór og myndarleg hrina og hún er enn í gangi,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um jarðskjálftahrinuna sem verið hefur í gangi í Öxarfirði frá því á laugardaginn.
Spurð hvort ekkert lát sé á skjálftahrinunni segir Elísabet að jarðskjálftarnir komi í bylgjum og róist á milli en síðan komi gjarnan stór skjálfti. „Þetta hefur róast aðeins núna en það þýðir alls ekki að þetta sé að verða búið. Það er of snemmt að segja til um það.“
„Við erum komin með yfir tvö þúsund skjálfta,“ segir Elísabet spurð um fjölda jarðskjálftanna til þessa. Sá stærsti til þessa átti sér stað í gærkvöldi og var upp á 4,2.
Spurð hvort líkur séu á eldgosum segir hún að sérfræðingar hafi borið saman bækur sínar hjá Veðurstofunni í dag og niðurstaðan verið sú að ekki sé talið að eldvirkni sé fyrir að fara.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinunnar.