Almannavarnir lýsa yfir óvissustigi

Skjálftar á Tjörnesbrotabeltinu síðustu 48 klukkustundir.
Skjálftar á Tjörnesbrotabeltinu síðustu 48 klukkustundir. Skjáskot/Veðurstofan

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna þeirrar jarðskjálftahrinu sem átt hefur sér stað í Öxarfirði undanfarna daga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra, þar sem segir að yfirlýsingin sé gerð í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra. Skjálftahrinan hófst á laugardag um sex kílómetra suðvestur af Kópaskeri. Frá því hún hófst hafa mælst 8 skjálftar af stærð 3 og yfir.

„Stærsti skjálfti hrinunnar mældist í gærkvöldi 27. mars, af stærð 4,2 kl. 20.29. Fjöldi skjálfta í hrinunni frá sjálfvirkum mælingum er a.m.k. 1800 skjálftar frá því hún hófst,“ segir í tilkynningunni.

„Nú í morgun, 28. mars kl. 05.48 mældist skjálfti 3,8 að stærð, annar skjálfti var í dag kl. 12.37 af stærð 3,0. Ekki hefur dregið úr skjálftavirkninni það sem af er liðið degi.“

Öflugri og nær byggð en nýlegar hrinur

Tekið er fram að fjöldi misgengja sé á þessu svæði og ómögulegt að segja hvaða áhrif þessi jarðskjálftahrina muni hafa.

„Hrinan er öflugri og er nær byggð en nýlegar hrinur. Þekkt er að svona hrinum geti fylgt stærri jarðskjálftar sem hafa áhrif í byggð. Jarðskjálftahrinum lýkur þó í flestum tilfellum án stærri atburða. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar frá íbúum á Kópaskeri og í Kelduhverfi sem hafa fundið stærstu skjálftana. Það er því ástæða til þess að íbúar hugi að innastokksmunum og geri aðrar viðeigandi ráðstafanir.“

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað, að því er fram kemur í tilkynningu ríkislögreglustjóra.

„Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hvetja fólk sem býr á þekktum jarðskjálftasvæðum til þess að huga að öryggi á heimilum sínum og vinnustöðum.“

Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra (www.almannavarnir.is) megi nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og/eða slysum í jarðskjálfta. Á vef Veðurstofunnar sé enn fremur hægt að senda inn tilkynningar hafi fólk fundið fyrir jarðskjálfta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert