Starfsmenn kveðja WOW air

mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsmenn WOW air hafa tjáð sig um gjaldþrot flugfélagsins á samfélagsmiðlum í dag eftir að örlög þess lágu fyrir í morgun. Fólk er eðlilega mjög slegið yfir fréttunum en þakklæti er því einnig ofarlega í huga fyrir samstarfið við nú fyrrverandi starfsfélaga.

„Þetta var gaman! Nú tekur eitthvað annað við,“ segir einn starfsmaðurinn og bætir við að hún sé ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast því frábæra fólki sem starfað hefði hjá WOW air. „Þvílíkur baráttuhugur, ég gæti ekki verið stoltari.“

Annar starfsmaður segist orðlaus og sorgmæddur. Þakklæti einkum í garð samstarfsfélaga er henni efst í huga. Þakkar hún WOW air fyrir frábært ferðalag og samstarfsfélögunum fyrir dásamlegt samstarf. Þeir væru henni sem fjölskylda.

„Mér líður eins og ég hafi misst náin fjölskyldumeðlim, það verður skrýtið að hitta ykkur ekki á hverjum degi, deila með ykkur sögum og hlusta á ykkar - Ég sakna ykkar strax.“

Fleiri starfsmenn tjá sig um fall WOW air. Meðal annars í athugasemdum við færslur fyrrverandi samstarfsmanna sinna. Þar er einnig mest áberandi þakklæti fyrir samstarfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert