Stjórnvöld virkja viðbragðsáætlun

Sigurður Ingi Jóhannsson í Stjórnarráðinu í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson í Stjórnarráðinu í morgun. mbl.is/​Hari

Stjórnvöld hafa virkjað viðbragðsáætlun vegna gjaldþrots WOW air. Þetta staðfestir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í samtali við mbl.is, að loknum ríkisstjórnarfundi í Stjórnarráðinu í morgun. 

Viðbúnaðarhópur stjórnvalda fylgist grannt með því að heimflutningur farþega gangi greiðlega fyrir sig. Áætlað er að um 4000 farþegar séu strandaglópar, þar af 1300 skiptifarþegar.

„Vandinn er kannski 2700 manns og af þeim er um það bil helmingurinn á Íslandi og hinn helmingurinn á leiðinni til Íslands,“ segir Sigurður Ingi. Hann segir jafnframt að áætlunin byggi á því að önnur flugfélög, líkt og Icelandair, komi að flutninga farþeganna. „Við vonumst til að það muni ganga nokkuð vel að greiða úr þessu.“

Vonuðu allan tímann það besta

Sigurður Ingi segir það fyrst og fremst vera vonbrigði að WOW air sé hætt rekstri. „Þetta eru vonbrigði. Annars vegar fyrir hönd félagsins og starfsmanna þess en einnig annarra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á WOW að einhverju leyti.“

Ríkisstjórnin mun næstu daga fara í að greina stöðuna sem komin er upp vegna gjaldþrots WOW air betur. Sigurður Ingi segir að það sé hins vegar hlutverk markaðsins að bregðast við. „Þetta var ekki ríkisrekin ferðaþjónusta. Okkar hlutverk er fyrst og fremst að fylgjast með og það höfum við svo sannarlega gert og þar af leiðandi verið viðbúin því að takast á við verstu mögulegu niðurstöðu sem er að birtast okkur í dag, en allan tímann vonuðum við það besta.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert