Baldur Arnarson
Sérfræðingar í neytendahegðun telja að WOW air hafi ekki mikinn tíma til að sannfæra neytendur um að félagið sé komið á réttan kjöl. Annars geti traust neytenda á félaginu farið hratt þverrandi.
Þórhallur Örn Guðlaugsson, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, tekur fram að hann tjái sig almennt um málið. Hann hafi hvorki upplýsingar um bókanir hjá WOW air að undanförnu né hvernig þær eru í sögulegu samhengi.
„Öll skilaboð sem koma núna frá félaginu miða að því að sannfæra fólk um að þetta fari vel. Stjórnendur átta sig á því að ef það myndast óvissa mun fólk væntanlega ekki bóka hjá félaginu heldur fara eitthvað annað.
Ef endurskipulagning félagsins gengur eftir ætti ekki að taka langan tíma að endurvinna traustið. Þetta er til dæmis allt annars eðlis en þegar bankarnir glötuðu trausti sem þeir eru enn að basla við að endurheimta,“ segir Þórhallur Örn í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.