Fyrirtækið Airport Associates sem veitir flugafgreiðsluþjónustu á Keflavíkurflugvelli og sem m.a. þjónustaði WOW air tilkynnti nú síðdegis að fyrirtækið hafi ákveðið að segja upp 315 manns í kjölfar gjaldþrots WOW air.
Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að stór hluti þeirra starfsmanna sem sagt er upp í dag, muni fá boð um áframhaldandi störf hjá fyrirtækinu með breyttu vaktafyrirkomulagi og breyttu starfshlutfalli.
Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, segir lög kveða á um að segja þurfi fólki upp til að gera breytingar á vaktafyrirkomulagi. Um 400 manns starfa hjá fyrirtækinu í dag. „Þetta kallar á svo miklar breytingar á vöktum og það má ekki breyta vöktum nema segja upp og ráða fólk aftur, ef það hefur stórkostleg áhrif og þetta flokkast undir það,“ segir Sigþór í samtali við mbl.is og nefnir sem dæmi að engin flug séu nú þar sem flug voru áður.
Í tilkynningunni sem Airport Associates sendi frá sér segist fyrirtækið harma að þurfa að grípa til svo róttækra aðgerða.
„Þetta er líka það að við erum að reyna að milda áhrifin með því að bjóða fleirum vinnu á lægra starfshlutfalli, þannig að höggið verði ekki jafn þungt. Svo vonumst við náttúrulega til að það fyllist upp í skarð WOW air með verkefnum hjá þeim sem mögulega sjá tækifæri í að koma inn,“ segir Sigþór.
„Af þeim 315 sem sagt er upp í dag stendur til að endurráða töluverðan fjölda. „WOW air var um 50% af því sem við vorum að gera, þannig að þetta verða líklega nær 200 manns [sem starfa munu áfram hjá fyrirtækinu]. Talan er þó ekki endilega endanlega komin, því við erum enn á teikniborðinu með þessa stöðu.“
Sigþór segir uppsagnirnar ná til fólks úr öllum deildum fyrirtækisins. „Það er misjafnt milli deilda hver áhrifin eru, en heilt yfir hefur þetta áhrif á allar deildir.“ Búið sé að halda starfsmannafundi í allan morgun með öllum deildum og fara yfir málin svo fólkið átti sig á stöðunni.
Verið er að senda út póst með formlegum uppsögnum í dag, en einnig fá þeir starfsmenn sem sagt er upp tölvupóst svo uppsögnin miðist við mánaðamótin.
Spurður hvernig starfsfólk hafi tekið fréttunum segir Sigþór sorgarstemningu í fyrirtækinu. „Auðvitað eru allir daufir í dálkinn, þetta er mikið áfall fyrir starfsfólkið okkar. Okkar starfsfólk er búið að vinna mjög náið með WOW air og þetta eru orðnir vinir. Þannig að þetta tekur á svo marga, því það eru einhverjir vinir og fjölskyldumeðlimir að missa vinnuna líka hjá WOW air. Þannig að þetta er mikið högg fyrir þetta samfélag.“
Byrjað verður að kynna endurskipulagningu vakta strax á mánudag. „Þannig að við getum byrjað að bjóða fólki vinnu strax eftir helgi,“ segir Sigþór. „Fólk er búið að vinna dag sem nótt að breyttu plani og það verður unnið sleitulaust alla helgina til að óvissutíminn sé sem skemmstur.“
Fréttin hefur verið uppfærð.