Farþegaþotur eru meðal dýrmætasta lausafjár sem fyrirfinnst. Það sem gerir þær sérstæðar er sá mikli hreyfanleiki sem þær hafa miðað við önnur verðmæti af svipaðri stærðargráðu. Vél sem kostar 10 milljarða getur tekið á loft frá flugvelli á Íslandi og verið komin hinum megin á hnöttinn á innan við hálfum sólarhring.
Þessi sérstaða veldur því að sérstakar reglur gilda um meðferð flugvéla og kyrrsetning er eitt þeirra úrræða sem beita má gagnvart flugfélögum sem brotið hafa skilmála í samningum við lánardrottna sína. Kyrrsetning miðar ætíð að því að lágmarka hættuna á því að eigandi kröfu verði fyrir tjóni þar til öðrum úrræðum, fyrir dómstólum, verður við komið.
Kyrrsetningarheimildir ná til fleiri tegunda verðmæta en flugvéla en lög um loftferðir, ásamt alþjóðasamningum þar um, ganga lengra en almenn ákvæði laga um kyrrsetningu. Þannig geta t.d. rekstraraðilar flugvalla aftrað för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd af viðkomu viðkomandi vélar eða trygging sett fram fyrir greiðslu þeirra. Þá geta leigusalar flugvéla einnig beitt kyrrsetningu gagnvart vélum sem eru í höndum leigutaka, hafi ekki verið greitt af leigusamningum er þær varða. Slíkum ákvæðum hefur nú verið beitt gegn WOW air og þar koma við sögu leigusalar fyrirtækisins og Isavia ohf. sem um mánaðaskeið hefur séð skuldir WOW air vegna lendingargjalda hlaðast nær stöðugt upp. Atburðarás í þá veru hófst á sunnudagskvöld þegar flugvélaleigufyrirtækið Jin Shan, sem er í eigu BoComm, lét kyrrsetja tvær vélar í sinni eigu sem WOW air var með í förum milli Íslands og Kanada annars vegar og hins vegar í leiguverkefnum milli Kúbu og Flórída-fylkis í Bandaríkjunum. Þær vélar hafa ekki tekið á loft frá 24. mars síðastliðnum.