Fundur VR vegna WOW mjög vel sóttur

Félagsmönnum voru afhent eyðublöð við komuna á fundinn.
Félagsmönnum voru afhent eyðublöð við komuna á fundinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölmenni er á fundi VR fyrir fyrrum starfsmenn flugfélagsins WOW air sem hófst nú klukkan tvö. Um 240 starfsmenn félagsins, sem var úrskurðað gjaldþrota í gær, eru í stéttarfélaginu og gróflega má áætla að um og yfir 200 hafi sótt fundinn. 

Fundargestir voru beðnir að fylla út eyðublöð við komuna. Þá var þess beiðst að félagsmenn mættu með launaseðla síðastliðinna sex mánaða, ráðningarsamning, sé hann til staðar og önnur gögn. Að loknum fundi býður VR félagsmönnum sínum að setjast niður í einstaklingsviðtölum.

Á fundinum verður farið yfir réttarstöðu starfsmanna og mun VR síðar gera kröfu í þrotabú WOW air fyrir ógreiddum launum félagsmanna sinna ásamt launum í uppsagnarfresti. 

Auk þessa biður VR félagsmenn sína hjá WOW air að uppfæra netföng og símanúmer á „mínum síðum“ á vefsíðu sinni og bendir félagsmönnum sínum á að skrá sig við fyrsta tækifæri hjá Vinnumálastofnun. 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert