Getur tekið hálft ár að fá laun greidd

250 manns mættu á félagsfund Flugfreyjufélags Íslands.
250 manns mættu á félagsfund Flugfreyjufélags Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það mun taka flugfreyjur- og þjóna um hálft ár að fá laun greidd sem þau eiga inni eftir að WOW air varð gjaldþrota. Mikil sorg ríkti á félagsfundi Flugfreyjufélags Íslands þar sem farið var yfir stöðuna eftir fréttir gærdagsins.

„Hljóðið í fólki var mjög þungt.  Fólk er virkilega sorgmætt og þetta er rosalega erfitt,“ segir Orri Þrast­ar­son, flugþjónn hjá WOW air og vara­formaður Flug­freyju­fé­lags Íslands. 250 manns mættu á fundinn.

Orri segir að mikið hafi verið spurt um Ábyrgðarsjóð launa en launakröfur eru forgangskröfur sem eru tryggðar af sjóðnum. Það mun taka sjóðinn um sex mánuði að vinna en fyrst þarf að lýsa kröfum í búið.

„Sveinn Andri [annar skiptastjóra búsins] er búinn að lýsa því yfir að það sé fjögurra mánaða frestur til að lýsa kröfum og þetta er ekki tekið fyrir fyrr en allar kröfur eru komnar í búið,“ segir Orri en í millitíðinni þarf starfsfólk að fara á atvinnuleysisbætur:

„Það eiga ekki allir rétt á bótum en einhverjir hafa verið í námi með vinnu,“ segir Orri og ítrekar að fundurinn hafi verið erfiður. 

Spurður um framtíðina var svarið einfalt: „Það er ekki framtíð. Við reynum að sinna okkar fólki hérna og það verður stórt verkefni fyrir Flugfreyjufélagið að halda utan um þetta og sjá til þess að fólk fái launin sín á endanum,“ segir Orri.

Hann segir Flugfreyjufélagið ótrúlega heppið að vera innan Alþýðusambands Íslands en það hafi reynst þeim vel. „Drífa Snædal samræmdi aðgerðir og við erum henni mjög þakklát.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert