Carmen Jóhannsdóttir hefur lagt fram fram kæru á hendur Jóni Baldvin Hannibalssyni vegna kynferðislegrar áreitni sem hún kveður hann hafa beitt hana á heimili hans á Spáni 16. júní 2018.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Carmen sem send var mbl.is.
„Málið er nú komið í hendur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég ber fullt traust til embættisins og trúi því að málið verði rannsakað af fagmennsku. Að teknu tilliti til þessa mun ég ekki tjá mig meira um málið opinberlega að svo stöddu.“
Carmen er ein fjögurra kvenna sem stigu fram í Stundinni í janúar og sögðu frá kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir af hendi Jóns Baldvins. Elstu brotin eru sögð hafa átt sér stað þegar Jón var kennari við Hagaskóla árið 1967 en ásökunin frá Carmen er sú nýjasta sem fram hefur komið.
Í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar var stofnaður sérstakur Metoo-hópur á Facebook þar sem fjöldi kvenna steig fram og sagði frá samskiptum sínum við ráðherrann fyrrverandi. Jón Baldvin neitar allri sök í málunum.