Ágreiningsmál fyrir héraðsdómi vegna þrotabús þar sem Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður er skiptastjóri hafði ekki áhrif á skipun hans sem skiptastjóra yfir þrotabúi WOW air. Þetta segir Barbara Björnsdóttir, varadómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.
Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir hafa gagnrýnt skipun Sveins Andra þar sem hann sé umdeildur vegna embættisgjarða sem skiptastjóri yfir öðru stóru búi þar sem fjórir kröfuhafar hafa lagt fram kvörtun gegn Sveini Andra þar sem þau telja að hann hafi ekki upplýst kröfuhafa um mikinn áfallinn kostnað.
Kveðið er á um störf skiptastjóra og hæfi þeirra í lögum um gjaldþrotaskipti en engar formlegar reglur gilda um skipun skiptastjóra. Lögmenn geta óskað eftir því að vera á lista yfir þá sem koma til greina sem skiptastjórar en annars gilda óskráðar reglur innan hvers héraðsdóms um skipan skiptastjóra.
„Það er fjöldinn allur af lögmönnum sem er á listanum og þetta skiptist á milli þeirra og þeir fá, með einhverju millibili, úthlutað örfáum búum í senn og svo gengur þetta í hring,“ segir Barbara.
Þegar um stærri bú sé að ræða, líkt og í tilfelli WOW air, er reynsla lögmanna einnig tekin með í reikninginn, að sögn Barböru. Þá skipti máli að lögmenn hafi reynslu af því að leysa úr stórum búum og þeir hafi sýnt að þeir geti tekið á við svo flókið og viðamikið verkefni.