Orrustuþotur á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO) hröktu á miðvikudag tvær rússneskar sprengjuflugvélar út úr loftrýmiseftirlitssvæði NATO við Íslandsstrendur.
Höfðu Rússarnir þó ekki brotið íslenska lofthelgi, en þetta er í annað skipti á fáeinum dögum sem orrustuþotur NATO eru sendar til móts við sprengjuvélar Rússa hér við land.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslu Íslands voru þarna á ferð tvær langdrægar sprengjuvélar af gerðinni Tupolev TU-142, betur þekktar sem Björninn. Vélarnar sem sendar voru frá Keflavík eru á vegum ítalska flughersins og eru þær af gerðinni Eurofighter Typhoon EF-2000, en fjórar slíkar vélar eru nú staðsettar á Keflavíkurflugvelli.