Neyðarfundur bæjarstjóra á Suðurnesjum og framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verður haldinn á morgun að beiðni Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns. Þar verður staðan rædd í kjölfar gjaldþrots WOW air og uppsagna.
Alls misstu 1.100 manns vinnuna við fall WOW air. Þá sagði fyrirtækið Airport Associates, sem veitir flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli, upp 315 manns í kjölfarið af fréttum af WOW. Kynnisferðir sögðu einnig upp 59 starfsmönnum í gær.
„Mín hugmynd með þessum fundi er að þarna hittist yfirmenn sveitarfélaganna og þeirra stofnana sem munu koma að þessu,“ segir Ásmundur við mbl.is. Hann segir það morgunljóst að Vinnumálastofnun og félagsþjónustur sveitarfélaganna þurfi að aðstoða þá sem hafa misst vinnuna en margir þeirra búa á Suðurnesjum.
„Það liggur alveg fyrir að það verður dýrast að gera ekki neitt,“ segir Ásmundur sem vill með fundinum stilla saman strengi til að áðurnefndir aðilar spýti í lófana.
„Við áttum ágætisverkefni sem hét virkjun mannauðs á Suðurnesjum en ég var einn af þeim sem vann við það árið 2007 og 2008 þegar atvinnuleysi var mikið eftir að herinn fór,“ segir Ásmundur. Hann bætir við að aðstaða tengd því verkefni sé enn til staðar og að hann telji að opna ætti athvarf fyrir þá sem hafa misst vinnuna.
„Þarna væri hægt að hittast og fulltrúar Vinnumálastofnunar og félagsmálastofnunar gætu verið á staðnum og fólk hefði greiðan aðgang að þeim. Við þurfum að virkja þessa hluti sem eru til.“
Ásmundur segir að áhrifin af falli WOW air séu þegar farin að sjást og ljóst sé að um mikið áfall sé að ræða fyrir fólkið sem situr eftir. Þess vegna segir hann að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir ríki og sveitarfélög að auka kraft í framkvæmdum.
Núna er akkúrat svoleiðis tími, nú þurfa allir að endurskoða framkvæmdir, bæði sveitarfélög og ríkið og skoða hvort ekki sé hægt að flýta mannfrekum framkvæmdum á Suðurnesjum. Það þarf að sýna að hægt sé að koma með verkefni sem fjölgi störfum. Við þurfum að virkja samtakamáttinn.“