Segjast hafa lagað gallann

Hluti kyrrsettra Boeing 737 MAX flugvéla Southwest Airlines kyrrsettur á …
Hluti kyrrsettra Boeing 737 MAX flugvéla Southwest Airlines kyrrsettur á flugvelli í Victorville í Suður-Kaliforníu í Bandaríkjunum. AFP

Forsvarsmenn Boeing-flugvélaverksmiðjanna lofuðu í fyrrinótt að þeir myndu gera allt sem í valdi þeirra stæði til þess að koma í veg fyrir frekari flugslys eins og þau tvö sem 737 MAX 8-vélar fyrirtækisins lentu í með skömmu millibili á síðastliðnu misseri.

Félagið kynnti um leið breytingar á hugbúnaði MAX-vélanna, sem á að koma í veg fyrir að svonefnt MCAS-kerfi bili, en það á að koma í veg fyrir að flugvélin ofrísi. Rannsóknir flugslysanna í Eþíópíu og Indónesíu hafa hins vegar beinst í síauknum mæli að bilun í búnaðinum, sem hafi ýtt vélunum niður á við á meðan flugmennirnir reyndu að halda þeim á lofti.

Boeing hefur meðal annars komið í veg fyrir að MCAS-kerfið reyni ítrekað að laga flug vélarinnar þegar flugmaður hennar reynir að ná stjórn á henni á ný, auk þess sem að það á að slökkva á sér ef tveir skynjarar, sem eiga að nema loftstreymi í kringum vélina, eru ekki á einu máli um það hver mælingin sé.

Þá mun flugfélögum bjóðast að fá viðvörunarljós í flugstjórnarklefann sem láti vita þegar skynjararnir eru ekki samstiga. Að lokum mun fyrirtækið endurskoða þjálfunarferil flugmanna sem hafa lært á 737, svo að þeir skilji betur hvernig 737 MAX-vélarnar virki.

Segir ferlið ítarlegt

Dan Elwell, starfandi forstjóri bandarísku flugumferðarstofnunarinnar, FAA, sat fyrir svörum öldungadeildarþingmanna, en spurningar hafa vaknað um þátt FAA við eftirlit með öryggisþáttum þegar MAX-vélarnar voru hannaðar.

Hafnaði Elwell ásökunum þess efnis að FAA og Boeing hefðu átt í of „nánum“ samskiptum varðandi þróun vélarinnar og sagði að öryggisprófanir á MCAS-kerfi vélarinnar hefðu verið bæði ítarlegar og nákvæmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert