Persónuvernd hefur tekið ákvörðun um að beita ekki sektarheimild vegna gagnagrunns fyrirtækisins Virkubrunns ehf. sem geymdi skattskrárupplýsingar og nefndist Tekjur.is.
Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu í lok nóvember að gagnagrunnurinn samrýmdist ekki lögum og að honum skyldi þar af leiðandi eytt. Þá var jafnframt tilkynnt að til skoðunar væri hvort leggja skyldi á sekt vegna gagnagrunnsins.
Vísað er til þess í ákvörðun Persónuverndar að kröfur til heimilda til álagningar stjórnvaldssekta séu strangari en til heimilda til útgáfu fyrirmæla eins og um hafi verið að ræða í fyrri ákvörðun stofnunarinnar.
Einnig er vísað til þess vafa sem uppi var um inntak 2. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt fram að töku ákvörðunarinnar hinn 28. nóvember 2018.
Komst Persónuvernd því að þeirri niðurstöðu að eins og málið væri vaxið, og þegar litið væri til þessa vafa, væru ekki forsendur fyrir beitingu sektarheimildar.