Þúsundir missa vinnuna

2.900 manns gætu misst vinnuna vegna gjaldþrots WOW.
2.900 manns gætu misst vinnuna vegna gjaldþrots WOW. mbl.is/​Hari

Búast má við því að störfum við flugrekstur og ferðaþjónustu hér á landi muni fækka um 2-3 þúsund í kjölfar gjaldþrots WOW air. Þar af eru um 900-1.000 starfsmenn flugfélagsins. Ekki hafa áður jafnmargir starfsmenn misst vinnu sína hér á landi á einum degi.

Margra mánaða tilraunum stjórnenda WOW air til að bjarga rekstri fyrirtækisins, með því að fá nýja fjárfesta til liðs við það, lauk í fyrrinótt með því að síðasti frestur ALC, sem á sjö af þeim þotum sem WOW hafði enn til afnota, rann út og kyrrsetti fyrirtækið vélarnar í Bandaríkjunum og Kanada. Skúli Mogensen, samstarfsmenn hans og ráðgjafar gátu ekki greitt þær skuldir sem ALC krafðist og skilaði WOW air flugrekstrarleyfi sínu til Samgöngustofu í gærmorgun og gaf félagið upp til gjaldþrotaskipta hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Lögmennirnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson voru skipaðir skiptastjórar.

Þúsundir strandaglópa hér og erlendis

Þúsundir flugfarþega urðu strandaglópar á Íslandi og austan hafs og vestan. Stjórnvöld virkjuðu viðbragðsáætlun, sem miðar að því að draga sem mest úr því að orðspor landsins sem ferðamannaland skaðist, með því að aðstoða þá sem áttu bókað flug við að komast á áfangastað.

Gekk allvel að greiða úr erfiðleikum þeirra sem áttu pantað flug með WOW air. Það var gert með aðstoð fjögurra erlendra flugfélaga sem hingað fljúga, auk Icelandair. Talið er að tekist hafi að koma nokkrum hundruðum manns í flug, jafnvel allt að þúsund, og mörg þúsund hafa bókað flug næstu daga.

Í viðbragðsáætlun stjórnvalda er miðað við að það taki 4-5 daga að taka af mesta kúfinn. Einhverjir eiga bókað flug síðar.

Spá auknu atvinnuleysi

Sérfræðingar reikna með að starfsmönnum þjónustufyrirtækja muni fækka. Um 400 starfa til að mynda hjá Airport Associates, fyrirtækinu sem þjónar flugfélaginu á Keflavíkurflugvelli, og var um helmingur verkefna félagsins fyrir WOW air. Stjórnendur félagsins hafa boðað til starfsmannafundar í dag. Þá er búist við að fækkun ferðamanna komi við ferðaþjónustufyrirtæki. Kynnisferðir sögðu í gær upp 59 starfsmönnum. Greiningardeildir bankanna spá auknu atvinnuleysi.

Stéttarfélög starfsmanna aðstoða félagsmenn sína og veita upplýsingar og Vinnumálastofnun hóf að vinna eftir sérstakri viðbragðsáætlun til að anna verkefnum. VR hefur boðað félagsmenn sína úr starfsliði WOW til fundar í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka