Stéttarfélagið VR mun leggja starfsmönnum WOW air sem eru félagsmenn í VR til lán nú um mánaðamótin fyrir fyrstu útgreiðslu úr ábyrgðasjóði launa sem orðið getur eftir sex til átta mánuði. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en stéttarfélagið hélt fund fyrir félagsmennina á Hilton Hotel Nordica í dag. Þar var farið yfir næstu skref og félagsmenn skiluðu inn gögnum svo sækja mætti launakröfur þeirra í þrotabú WOW air.
Fulltrúar Vinnumálastofnunar sóttu fundinn einnig og voru félagsmönnum boðin einstaklingsviðtöl við starfsfólk VR að loknum fjöldafundi. Voru þau vel sótt og löng röð myndaðist. Starfsmaður WOW air sem mbl.is náði tali af kvaðst ánægður með skjót viðbrögð VR og að góðar upplýsingar hefðu verið veittar á fundinum.
„Það var farið yfir allt ferlið, hvað gerist við gjaldþrot fyrirtækis, hvernig við gerum kröfuna, hvað þarf til, hvaða pappírum þarf að skila og hvað þarf að fylla út. Við fórum yfir það hvað er hægt að gera kröfu á og hvað ekki, og þar fram eftir götunum. Við fórum yfir alla ferla þannig að fólk skildi ferlana og af hverju þetta tekur svona langan tíma og hvernig stéttarfélagið sækir þessar launakröfur o.s.frv.,“ segir Ragnar Þór. Þá var rætt að hvaða marki ábyrgðasjóður launa ábyrgist kröfur starfsmannanna.
„Ábyrgðasjóður launa ábyrgist t.d. ekki dagpeninga og upp að 633 þúsund krónum. Það eru 370 þúsund krónur útborgað. Síðan fórum við yfir það hvaða áhrif þetta hefur á orlof, fæðingarorlof o.s.frv.,“ segir hann.
Ragnar Þór segir miklu skipta að starfsfólkið geti farið inn í helgina og verið búið að binda fyrir lausa enda hvað varðar samskiptin við VR og fleiri þætti.
„Það sem skiptir máli er að fólk sé að skila inn öllum gögnum og að þetta fólk geti farið inn í helgina, búið að klára alla gagnavinnu. Þetta er flókið ferli fyrir stéttarfélög að gera kröfu á ábyrgðasjóð launa eða gjaldþrota fyrirtæki. Ég held það sé mjög mikill léttir fyrir fólk að vera búið að því og að þetta sé komið í ferli. Það þarf þá bara að fara niður í Vinnumálastofnun til að geta fengið atvinnuleysisbætur frá mánaðamótunum apríl/maí,“ segir Ragnar Þór.
Sem fyrr sagði mun VR hlaupa undir bagga með félagsmönnum sínum með því að leggja þeim til lán fyrir launagreiðslum um mánaðamótin, samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins.
„Fólk fær ekki greidd laun og þetta gerist með ofboðslega stuttum fyrirvara. Í dag er 29. mars og í rauninni nánast útborgunardagur. Við munum bjóða starfsfólkinu lán nú um mánaðamótin fyrir útgreiðslu ábyrgðasjóðs launa þannig að það verði ekki tekjulaust, en útgreiðsla úr ábyrgðasjóði launa getur orðið eftir sex til átta mánuði,“ segir Ragnar og nefnir til viðbótar að tekið geti fjórar til fimm vikur að komast á atvinnuleysisbætur. Hann segir að fordæmi sé fyrir því að þessi leið hafi verið farin.
„Ég held þetta hafi mælst mjög vel fyrir hjá félagsmönnum. Við gerum okkur grein fyrir því að það er mikið áfall fyrir fólk að missa tekjur fyrirvaralaust, rétt fyrir mánaðamót, með allar sínar skuldbindingar,“ segir hann.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, sótti fund VR í dag. Hún segir að fólk hafi verið yfirvegað.
„Fólk er hér aðallega að leita að praktískum upplýsingum. Það eru mýmargar spurningar sem upp koma í svona tilvikum, bæði um fólk sem vinnur með námi, sem er í fæðingarorlofi, réttinn í ábyrgðarsjóð launa o.s.frv. VR er það sterkt félag að þau hafa greinilega ákveðið að hlaupa undir bagga með félagsmönnum sínum. Önnur félög eru ekki í stakk búin til að gera það. Við erum aðeins að reyna að gera okkur grein fyrir stöðunni,“ segir hún.
Drífa sótti einnig fund Flugfreyjufélagsins með starfsfólki WOW air. Hún kveðst binda vonir við að fólkið eigi möguleika á því að vinnumál þeirra leysist farsællega.
„Mín tilfinning af því fólki sem ég hef verið að hitta í dag er að þetta er fólk sem hefur alls kyns möguleika til að fara í önnur störf. Oft og tíðum vel menntað fólk og það vekur með mér vonir um að þetta muni leysast farsællega. Auðvitað verður erfitt millibilsástand,“ segir hún.
Spurð hvort henni hafi virst fólk hafa gengið einhvers vísara út af fundinum kveður hún já við.
„Alveg örugglega. Ég held að fólk gangi út af þessum fundi, alveg eins og hjá Flugfreyjufélaginu, og viti að félagið muni standa að baki því og veita því alla mögulega hjálp og aðstoð sem hægt er að fá,“ segir hún.