Stjórn Verkalýðs-og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis hefur ákveðið og samþykkt að aðstoða sína félagsmenn, sem störfuðu hjá WOW air, vegna launagreiðslna þessi mánaðarmót. Þetta staðfestir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður félagsins, við mbl.is.
„Við ætlum að feta í fótspor félaga okkar hjá VR og fara sömu leið, að kaupa kröfuna fyrir laununum í mars af starfsmönnunum,“ segir Guðbjörg, en VR tilkynnti fyrir helgi að félagið myndi leggja félagsmönnum sínum sem voru í starfi hjá WOW til fyrir fyrstu útgreiðslu úr ábyrgðasjóði launa.
Guðbjörg segir að um sé að ræða á bilinu 25-30 félagsmenn VSFK sem voru í starfi hjá WOW. Verða þeir nánar upplýstir á fundi hjá félaginu í Krossmóa 4 á mánudaginn klukkan 16.
„Svo við getum sótt í ábyrgðarsjóð launa þá þurfum við að hafa launaseðla og ráðningarsamninga til þess að vita hvað það er sem við erum að sækja. Ég geri ráð fyrir því að við munum sækja fyrir alla okkar félagsmenn, svo þeir þurfi ekki að gera það sjálfir.“
Aðspurð hvort félagið hafi verið í miklum samskiptum við starfsfólkið sem um ræðir segir Guðbjörg svo vera.
„Það eru flestallir starfsmennirnir í okkar félagi búnir að koma til okkar. Flest voru mætt á skrifstofuna klukkan níu um morguninn [þegar WOW fór í þrot] og við vorum þá eiginlega bara að fá fréttirnar. Við þurftum því ekki að setja upp neina tilkynningu.“
Guðbjörg segir að starfsfólkið beri sig skiljanlega illa enda mikil óvissa framundan. Þess vegna sé ekki síður mikilvægt að hittast á fundinum á mánudag þar sem samhugurinn skipti miklu máli.
„Það er ekki bjart framundan þegar verið er að segja upp á öðrum vígstöðvum líka. Fólk er svartsýnt og kvíðir fyrir mánaðarmótunum. Ef það fær ekki greiðslur núna gerist það ekki fyrr en kannski í lok apríl eða byrjun maí. Þetta er langur tími til að vera launalaus og fólk óttast afkomu sína,“ segir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs-og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.