Guðni Einarsson
„Myndin sem upptökur úr öryggismyndavélum sýnir er allt önnur en sú sem Bára Halldórsdóttir hefur lýst,“ sagði Bergþór Ólason alþingismaður um efni úr öryggismyndavél frá kvöldinu á Klaustri bar 20. nóvember sl.
„Það skýrir hvers vegna lögmenn Báru börðust svo hart gegn því að þessar upptökur væru skoðaðar.“ Myndefnið þykir benda til þess að framganga Báru hafi verið undirbúin en ekki fyrir tilviljun, að sögn Bergþórs.
Hann segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag að Bára hefði gengið beint til verks. Ekki vantaði nema sex mínútur upp á að sá tími sem upptökurnar tóku til væri jafn langur og sá tími sem Bára var inni á staðnum. Útilokað væri að henni hefði ofboðið orðbragð þingmannanna og því byrjað að hljóðrita tal þeirra, til þess hefði ekki gefist tími. Hann telur að Bára hafi verið með upptökutæki auk símans.
Bergþór nefndi ljósmynd sem var tekin inn um glugga Klausturs þar sem þingmennirnir sjást. „Því var haldið fram að hún hefði verið tekin af ótengdum aðila og send til fjölmiðla. Nú kemur í ljós að myndin er tekin af Báru sjálfri,“ sagði Bergþór. Hann sagði að reynt yrði að komast til botns í því hvort Bára hefði átt samverkamenn varðandi upptökurnar. Ekki væri eðlilegt ef til dæmis fjölmiðill hefði skipulagt þessa aðgerð.
Bergþór sagði að óskað yrði eftir því að myndbandsupptökur frá því fyrir og eftir þær sem nú liggja fyrir yrðu einnig skoðaðar.