Eigandi tveggja flugvéla sem WOW air hafði í rekstri og nú eru á Keflavíkurflugvelli hefur haft samband við Isavia og er fundur áformaður eftir helgi. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Önnur véla eigandans, TF-GPA, var kyrrsett eftir að WOW hætti starfsemi og samkvæmt upplýsingum RÚV þarf eigandi hennar að borga skuld WOW við Isavia til að geta endurheimt flugvélina. Ekki hvíla kvaðir á hinni vélinni, TF-SKY.
Skuldin sem um ræðir nemur á bilinu 1,5 til 1,8 milljörðum og mun eigandi vélarinnar að líkindum gera kröfu í þrotabú WOW air eftir að hafa gert upp við Isavia. Eigandinn sem um ræðir er Air Lease Corporation sem er í eigu bandaríska milljarðamæringsins Steve Hazy.