Kamilla Einarsdóttir hlaut Rauðu hrafnsfjöðrina, verðlaun fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins 2018 í íslenskum bókmenntum, en viðurkenningin var veitt á aðalfundi Lestrarfélagsins Krumma síðastliðinn laugardag. Þetta var í fjórtánda sinn sem viðurkenningin er veitt að því er fram kemur í tilkynningu frá Lestrarfélaginu Krumma.
Lýsing Kamillu birtist í bók hennar Kópavogskrónika - til dóttur minnar með ást og steiktum og hljóðar svo:
„Við skutluðum ljóðavini okkar heim og lögðum svo bílnum og ég saug á honum typpið. Það gekk vel en eftir á fékk ég smá móral. Fannst þetta skyndilega eitthvað svo smáborgaralegt. Að sjúga svona typpið á kapítalista í smábíl í Grafarvogi. En svo sá ég að smá brundur hafi klínst í pilsið mitt og það minnti mig á Með ský í buxum eftir Mayakovskí svo mér leið aðeins betur.“
Fyrri hrafnsfjaðrarhafar eru Eiríkur Örn Norðdahl fyrir Eitur fyrir byrjendur 2006, Elísabet Jökulsdóttir fyrir Heilræði lásasmiðsins 2007, Hermann Stefánsson fyrir Algleymi 2008, Steinar Bragi fyrir Himininn yfir Þingvöllum, 2009, Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir og Magnús Þór Jónsson, Megas, fyrir Dag kvennanna – ástarsögu 2010, Sigríður Jónsdóttir fyrir ljóðasafnið Kanil 2011, Auður Ava Ólafsdóttir fyrir Undantekninguna 2012, Sjón fyrir Mánastein 2013, Soffía Bjarnadóttir fyrir Segulskekkju 2014, Bergsveinn Birgisson fyrir Geirmundar sögu heljarskinns 2015, Sigurbjörg Þrastardóttir fyrir örsagnasafnið Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur 2016 og Þórarinn Leifsson fyrir skáldsöguna Kaldakol 2017.