Verkalýðshreyfingin með „ranghugmyndir“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir óskynsamlegt að setja ferðaþjónustufyrirtæki í þá stöðu að starfsmenn þeirra fari í verkfall nú í upphafi nýrrar viku ofan á allt annað sem ferðaþjónustan hefur mátt þola undanfarið. Jóhannes Þór var gestur í útvarpsþættinum Þingvellir á K100 í morgun. Verkalýðsfélögin hafa boðað að kröfur þeirra standi og skerpt verði á þeim ef eitthvað er.

„Það eru einhvers konar ranghugmyndir verð ég að segja, bara beinlínis beint út. Með þessu er verkalýðshreyfingin að segja að það sé í lagi að fólk missi vinnuna. Það er það sem þetta snýst um. Það er byrjað að gerast og það mun halda áfram að gerast. Óraunhæfar launahækkanir munu einfaldlega auka á þann vanda,“ sagði Jóhannes.

Krafan um samninga hverfur ekki

Spurður hver staða verkalýðshreyfingarinnar væri nú og hvort kaldur raunveruleiki blasti nú við í kjölfar mikilla loforða þeirra til félagsmanna sinna sagði Jóhannes að verkalýðshreyfingin þyrfti að horfa á heildarmyndina.

„Það er hlutverk aðila vinnumarkaðarins að ná samningum. Það verkefni fer ekkert í burtu. Það er skýrt hvað ríkið ætlar að koma með að því borði og allar aðstæður til staðar til að menn geti sest niður og komist að niðurstöðu,“ sagði Jóhannes. Hann sagði verkfallsþrýsting engu breyta um það hvað væri til skiptanna og hvað fyrirtækin gætu tekið á sig.

„Menn verða að átta sig á því við þetta borð, í atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni, að staða fyrirtækjanna í ferðaþjónustunni er einfaldlega þannig að þau geta ekki tekið á sig gríðarlega háan launakostnað í viðbót. Hann hefur aukist um 75% frá árinu 2010 og þá er allur annar kostnaður eftir,“ sagði hann. Jóhannes nefndi einnig að ferðaþjónustan væri mannaflsfrek grein og því vægi launakostnaður þar þyngra en ella.

Fleira leiðir til uppsagna en gjaldþrot WOW air

Jóhannes ræddi einnig stöðu mála vegna gjaldþrots flugfélagsins WOW air. Björt Ólafsdóttir, þáttarstjórnandi, spurði hvort þær 2-3000 uppsagnir sem yfirvofandi eru samkvæmt fréttaflutningi, mætti allar beintengja við gjaldþrot WOW air.

„Ég held að þetta sé ekki alveg svo einfalt. Þetta er að sjálfsögðu atburður sem einn og sér veldur því að gríðarlegur fjöldi missir vinnuna og það eru skelfilegar fréttir fyrir hvern og einn sem fær þær,“ sagði Jóhannes. „Ef við skoðum heildarsamhengið, þá held ég að við getum sagt að beinlínis vegna WOW sjáum við í kringum 1.400 manns sem missa vinnuna [...]. Síðan sáum við á föstudag tilkynningar frá fyrirtækjum sem eru beinlínis að hagræða, bæði fyrirtækjum í ferðaþjónustu og á markaðnum almennt,“ sagði hann.

Björt spurði hvort þessi fyrirtæki væru að kenna WOW air um sínar hrakfarir og vísaði t.d. Til uppsagna Kynnisferða og vísaði til vísbendinga í rekstri þess fyrirtækis um erfiðleika óháða WOW air.

„Í rekstri hópferðafyrirtækjanna hafa verið gríðarlegir erfiðleikar. Stærstu fyrirtækin hafa verið rekin með mörg hundruð milljóna tapi sl. eitt til tvö ár. Þau hafa verið í mjög föstum hagræðingarfasa og það er lengri aðdragandi að þessu,“ sagði hann. „Það er aftur á móti augljóst að þegar þetta bætist ofan á, þá hefur það gríðarlega mikil áhrif,“ sagði Jóhannes. Hvort tveggja rekstraraðstæður og gjaldþrot WOW air spiluðu augljóslega saman auk aðstæðna í kjaraviðræðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert