Farþegar Strætó sýni þolinmæði

„Við förum eftir þessu plani sem við teiknuðum upp um …
„Við förum eftir þessu plani sem við teiknuðum upp um helgina og felst í því að hætta akstri við stærri biðstöðvar eða endastöðvar svo vagnarnir geti klárað ferðirnar,“ segir Guðmundur. mbl.is/Eggert

„Við vonum innilega að það verði samið í dag. Þetta er gríðarleg röskun og margir sem geta ekki tekið sínar leiðir,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við mbl.is.

Seinna verkfall bílstjóra Almenningsvagna Kynnisferða hefst klukkan 16, en að sögn Guðmundar gekk áætlun Strætó vegna verkfallsins þokkalega fyrir sig.

„Við förum eftir þessu plani sem við teiknuðum upp um helgina og felst í því að hætta akstri við stærri biðstöðvar eða endastöðvar svo vagnarnir geti klárað ferðirnar,“ segir Guðmundur.

Verkfallið er það fyrsta sinnar tegundar og segir Guðmundur Strætó spila þetta eftir eyranu, en að áætlunin hafi gengið svo vel í morgun að engar breytingar verði gerðar fyrir verkfallið nú síðdegis.

Engu að síður sé búist við erfiðari stöðu nú síðdegis vegna þess að umferðin sé gjarnan þyngri.

Guðmundur segir farþega almennt mjög vel upplýsta um ástandið en vill beina því til þeirra að skipuleggja sig vel. „Þeir kynni sér tímaáætlun og leiti annarra leiða eða finna sér aðra fararkosti. Og sýni þolinmæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert