Heimildarmynd um áhrif fiskeldis

Um 150 opnar sjókvíar eru við ósa árinnar Alta í …
Um 150 opnar sjókvíar eru við ósa árinnar Alta í Noregi. Áin er þekkt fyrir sinn stóra atlantshafslax.

Evrópufrumsýning á heimildarmyndinni Artifishal verður í Ingólfsskála í Ölfusi 10. apríl. Myndin, sem framleidd er af stofnanda útivistarfataframleiðandans Patagoniu, Yvon Chouinard, beinir sjónum að skaðlegum áhrifum klakstöðva og opins fiskeldis á villta fiskistofna, ár og umhverfi.

Í fréttatilkynningu segir að kynningarherferð Patagoniu í Evrópu taki sérstaklega til laxeldis við strendur Íslands, Noregs, Skotlands og Írlands með ákalli til almennings um að skrifa undir áskorun til ríkisstjórna um að banna laxeldi í opnum kvíum.

Sjókvíar í Alta í Noregi.
Sjókvíar í Alta í Noregi.

Í kjölfar frumsýningar myndarinnar hér verður hún sýnd víða um heim. „Myndin sviptir hulunni af þeirri dýrkeyptu ranghugmynd að bæta megi fyrir eyðileggingu vistkerfa með hönnuðum tæknilausnum,“ segir í tilkynningu. Rakin eru áhrif klakstöðva og opinna eldisstöðva, „iðnaðar sem hamlar viðgangi villtra fiskistofna, mengar ár og eykur vanda sem hann þykist leysa“.

Artifishal er sögð varpa ljósi á þrengingar villtra fiskistofna af völdum klak- og eldisstöðva. Í myndinni eru sýndar klakstöðvar í Kaliforníu, Washington, Oregon og Idaho í Bandaríkjunum, auk þess sem sýndar eru aðstæður í eldisstöðvum og undirmálslax sem þar er framleiddur í miklu magni. Í henni eru einnig sýndar Í neðansjávarupptökur í firði nærri Alta í Noregi þar sem afleiðingar eldisins blasa við.

„Maðurinn hefur alltaf talið sig æðri náttúrunni og það hefur komið okkur í mikil vandræði,“ er haft eftir Yvon Chouinard, stofnanda Patagoniu, í fréttatilkynningu. „ Við þykjumst geta stýrt náttúrunni, en getum það ekki. Ef við metum villtan lax einhvers þarf strax að grípa til aðgerða. Lífið er fátæklegra án óspilltrar náttúru og þessara merku tegunda. Glötum við öllum villtum tegundum glötum við okkur sjálfum.“

Meirihluta laxeldisstöðva í Evrópu er að finna í Noregi og Skotlandi, og segja aðstandendur myndarinnar að þar hafi þær stórskaðað lífríki við strendur. Bent er á að fyrirhuguð sé mikil uppbygging frekara eldis í fjörðum Íslands, Noregs, Skotlands og Írlands.

Sænski blaðamaðurinn Mikael Frödin, smeygir sér ofan í norska sjókví …
Sænski blaðamaðurinn Mikael Frödin, smeygir sér ofan í norska sjókví til að mynda aðstæður.

Í tilkynningunni kemur fram að Patagonia leggist á árar með frjálsum félagasamtökum sem berjast fyrir málstaðnum á hverjum stað, Verndarsjóði villtra laxastofna á Íslandi, Salmon and Trout Conservation Scotland og Salmon Watch Ireland

Hér má finna frekari upplýsingar um sýningar Artifishal, herferðina og undirskriftasafnanir.

Facebook-síða Evrópufrumsýningarinnar í Ölfusi.

Patagonia, sem framleiðir útivistarfatnað, var stofnað árið 1973 af Yvon Chouinard. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Ventura í Kaliforníu. Fyrirtækið er með samfélagsábyrgðarvottun og hefur til þessa veitt yfir 100 milljónum dala í styrki og gjafir í þágu umhverfisverndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert